Fastir pennar

Umferðarslysum fækkar

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Á tímum þegar flestar fréttir eru heldur vondar fréttir er bæði hollt og gott að halda því til haga sem horfir til betri vegar í samfélaginu. Þetta á við um glímuna við umferðarslys og afleiðingar þeirra.

Þrátt fyrir að umferð á vegum hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum og víða standi vegakerfið á álagstímum illa undir þeirri umferð sem því er ætlað að bera fer dauðaslysum í umferð heldur fækkandi. Nýjar tölur um fækkun alvarlega slasaðra milli ára gefa vonandi vísbendingu um að árangur sé einnig að nást á því sviði.

Fyrstu sex mánuði ársins fækkaði slösuðum í umferðinni um rúm sextán prósent miðað við sama tímabil í fyrra, en þar á undan fjölgaði alvarlega slösuðum ár frá ári. Varlega þarf þó að fara í ályktunum út frá tölum milli tímabila vegna þess hve mikið vægi hvert slys hefur í heildartölum hvers árs í fámenninu hér á landi.

Séu lengri tímabil skoðuð og sést þó að fórnarlömbum umferðar­slysa fækkar hægt og bítandi þó að ekki dragi úr umferð.

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar dró ekki úr umferð milli ára, eins og sumir höfðu talið að myndi gerast vegna kreppunnar. Hins vegar hefur dregið úr meðalhraða og ofsaaksturstilvikum hefur einnig fækkað; umferðarmenning hefur sem sagt batnað.

Gera má ráð fyrir að hert viðurlög við umferðarbrotum hafi þarna ákveðið forvarnagildi en vonandi má líka greina einhverja vitundarvakningu meðal ökumanna um þá ábyrgð sem felst í því að aka bíl. Loks verður að taka það með í reikninginn að öryggis­búnaður bifreiða er í stöðugri framþróun þannig að ætla má að bílarnir verji bílstjóra og farþega nú betur en áður.

Þeir sem ekki hafa sjálfir orðið fyrir slysi í umferðinni, eða einhver þeim nákominn, leiða sjaldan að því hugann hversu afdrifarík umferðarslys eru. Þeir sem slasast alvarlega í umferðarslysi búa iðulega við skerta eða jafnvel afar litla starfsgetu þaðan í frá. Afleiðingarnar eru óhjákvæmilega minni tekjur, sem hafa í för með sér skert lífsgæði ofan á þá skerðingu lífsgæða sem beinar afleiðingar slyssins valda. Þá er ótalinn sá kostnaður sem samfélagið í heild ber af afleiðingum umferðarslysa.

Samkvæmt umferðaröryggisáætlun er það markmið íslenskra stjórnvalda að fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa sé ekki meiri en lægst gerist hjá öðrum þjóðum árið 2016. Sömuleiðis að fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferð lækki að jafnaði um fimm prósent á ári til ársins 2018.

Fyrra markmiðið virðist í réttum farvegi og tala látinna í umferðarslysum á Íslandi fylgir nokkuð sömu þróun og á Norður­löndunum og er heldur lækkandi. Árangurinn hefur ekki verið jafngóður þegar kemur að alvarlega slösuðum. Samanburðartölur um fjölda slasaðra á fyrri hluta áranna 2008 og 2009 gefa vonandi tóninn um viðsnúning þar.

Bílstjórinn sjálfur gegnir lykilhlutverki í umferðaröryggismálum. Andvaraleysi hans eitt andartak getur haft gífurlega afdrifaríkar afleiðingar. Því betur sem bílstjórar gera sér grein fyrir því, þeim mun minni hætta er okkur búin á vegunum.








×