Viðskipti erlent

Tískukroppar kreppunnar eru búttaðir og mjúkir

Þvengmjóar fyrirsætur með heróín-útlit heyra nú sögunni til. Þær voru andlit uppsveiflunnar í tískunni á síðustu árum. Í dag eru tískukroppar kreppunnar búttaðir og mjúkir samkvæmt úttekt sem börsen.dk hefur gert á málinu.

Brjóstastærðin á fyrirsætunum hefur blásið út um nokkur skálanúmer eftir að kreppan skall á og sjást þess greinilega merki á forsíðum tískutímarita þessa dagana. Það kemur sumsé í ljós að á krepputímum vilja menn nota fatafyrirsætur með heilbrigðar og mjúkar línur. Fyrirsætur sem eru jafnmikið augnayndi í garðinum sem á götunni.

Hönnuðir og fataframleiðendur taka nú mið af þessum breytingum á smekk almennings enda eru þvengmjóar fyrirsætur með innfallnar kinnar ekki það sem fólk vill sjá í kreppunni.

Franski nærfataframleiðandinn Lejaby hefur gengið svo langt að fyrirtækið kynnir nú sérstaka fatalínu sem er eingöngu fyrir konur sem geta fyllt vel út í brjóstahaldarana. Línan ber nafnið Elixir de Lingerie og segir talsmaður Lejaby að hún sé svarið við stærri brjóstum á fyrirsætum sem er tískuþróunin í Evrópu þessa stundina.

Umboðsskrifstofur tískufyrirsætanna verða áþreifanlega varar við þessa nýju hugsun í útliti á skjólstæðingum sínum. Sem dæmi er tekið fyrirsætan Christina Pram hjá Scoop Models sem hefur meir en nóg að gera í augnablikinu. „Christina er grönn en hefur jafnfram línur sem þykja heitar í dag," segir Bente Lundquist annar eigenda Scoop Models.

Christina Pram prýðir myndina sem fylgir með þessari umfjöllun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×