Viðskipti erlent

Sænska fjármálaeftirlitð staðfestir kaupin á Carnegie

Sænska fjármálaeftirlitið hefur nú staðfest kaup tveggja fjárfestingarsjóða, Altor og Bure Equity, á Carnegie bankanum í Svíþjóð. Kaupverðið var 2 milljarðar sænskra kr. eða rúmlega 28 milljarðar kr.

Það var Lánastofnun sænska ríkisins, Riksgälden, sem seldi Carnegie en bankinn komst í eigu stofnunarinnar er sænska ríkið þjóðnýtti bankann fyrr í vetur. Fyrir þjóðnýtinguna átti Milestone 10% í bankanum.

Auk bankans keyptu þessir sjóðir tryggingarfélagið Max Matthiessen Holding AB sem var í eigu Carnegie og hefur sænska fjármálaeftirlitið einnig fallist á þau kaup að því er segir í tilkynningu.

Samkvæmt frétt um málið á Dagens Industri fyrr í vetur sagði Bo Lundgren forstjóri Riksgälden að kaupverðið dugi til að greiða lán sem bankinn fékk frá sænskum stjórnvöldum í september s.l..

"Þessi kaup eru góð fyrir ríkið, bankann og kaupandann," segir Lundgren. "Kaupin tryggja áframhaldandi rekstur bankans og skattgreiðendur koma á sléttu út úr kaupunum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×