Körfubolti

Jakob Örn: Ætlum okkur titilinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jakob átti magnaðan leik fyrir KR.
Jakob átti magnaðan leik fyrir KR. Mynd/Daníel

„Þetta var bara geðveiki. Ég meina fjórar framlengingar. Ég hef aldrei lent í öðru eins," sagði KR-ingurinn Jakob Örn Sigurðarson úrvinda en brosmildur eftir líklega ótrúlegasta körfuboltaleik á Íslandi frá upphafi.

„Það er náttúrulega síðan ekkert eðlilega ljúft að vinna í svona leik. Þetta var hrikalega sveiflukenndur leikur. Þeir yfir, við yfir, ótrúleg skot í endann og ég veit ekki hvað og hvað," sagði Jakob Örn sem átti magnaðan leik og skoraði 31 stig. Hann fékk þess utan aðeins dæmdar á sig tvær villur í leiknum.

Jakob fagnar því að KR-liðið sé komið í úrslitarimmu deildarinnar þar sem það mætir annað hvort Grindavík eða Snæfell.

„Við tökum góða hvíld og svo er það bara næsta verkefni. Við erum enn hungraðir og jafnvel meir en áður eftir að hafa tapað í bikarúrslitum. Við ætlum okkur titilinn og verðum klárir sama hvort liðið við fáum," sagði Jakob Örn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×