Lífið

Ástarjátning á veggstyttu

Fjársjóðsleit Jónas Halldórsson antíksali fann forláta styttu í dánarbúi fyrir stuttu.  Mynd/Björgvin
Fjársjóðsleit Jónas Halldórsson antíksali fann forláta styttu í dánarbúi fyrir stuttu. Mynd/Björgvin

Jónas Halldórsson, antíksali í Hafnarfirði, gerði merkilegan fund fyrir stuttu þegar hann var að ganga frá dánarbúi. Fundurinn var veggstytta með dularfullri áletrun.

Antík- og listmunasalinn Jónas Halldórsson gerði nýlega upp dánarbú þar sem hann fann meðal annars fallega veggstyttu af ljóshærðri konu en aftan á styttunni mátti sjá undarlega áletrun. Eftir nokkra eftirgrennslan komst Jónas að því að áletrunin var í raun ástarjátning. „Aftan á styttunni stendur á ítölsku:

„Ó, Maggí mín guðdómlega" og er það maður að nafni Sergio sem ritar þetta.

Auk þess fann ég aðra áletrun sem var tölustafurinn sautján ritaður í rómverskum tölum. Ég hef komist að því að þetta þýddi að sautján ár höfðu verið liðin frá uppgangi fasismans á Ítalíu og ekki ólíklegt að Sergio hafi verið háttsettur innan fasistaflokksins." Aðspurður segir Jónas erfitt að segja til um hver þessi guðdómlega Maggí hafi verið, enda hafi hann ekki fengið neinar upplýsingar um eiganda búsins, en útilokar ekki að hún hafi verið ljóshærð eins og konan á styttunni.

Jónas segir styttuna ekki hafa verið það eina skrítna sem hann hafi fundið í þessu tiltekna dánarbúi því hann hafi að auki fundið mikið af fallegum sparikjólum frá 1920, óopnaða kryddstauka sem voru um hálfrar aldar gamlir og gömul ávísanahefti.

„Í mínu starfi er maður alltaf í leit að fjársjóðum og ég hef fundið ótrúlegustu hluti. Eitt sinn fann ég til dæmis blóði drifinn sjóliðabúning uppi á háalofti í húsi einu í miðbænum," segir Jónas og bætir við að antíksalan hafi blómstrað eftir að kreppan skall á. „Antíksala var að leggjast af í góðærinu, en nú er fólk hætt að henda gömlum munum auk þess sem fólk vill nú hluti frá fortíðinni sem milda umhverfið." - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.