Handbolti

Guðmundur: Er mjög sáttur með riðilinn okkar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson og Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari.
Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson og Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari.

Í dag varð ljóst hverjir verða andstæðingar karlalandsliðs Íslands í handbolta á lokakeppni EM í Austurríki í byrjun næsta árs en Danmörk, Serbía og Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Austurríki eru með Íslandi í b-riðli mótsins.

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson var búinn að melta dráttinn þegar Vísir heyrði hljóðið í honum og var afar sáttur með niðurstöðuna.

„Ég er bara mjög sáttur með riðilinn og við munum mæta skemmtilegum liðum. Það er frábært að mæta heimaþjóðinni sem Dagur er að þjálfa og síðan eru Danir auðvitað í sérstöku uppáhaldi hjá okkur og það er alltaf gaman að spila við þá. Serbar eru með hörkulið líka en ég held að við getum bara verið sáttir með þennan riðil," segir Guðmundur.

Guðmundur fer nú á fullt ásamt HSÍ við að skipuleggja undirbúning íslenska liðsins fyrir lokakeppnina og hlakkar til þess að takast á við það.

„Við vildum sjá hvaða þjóðum við myndum mæta í Austurríki og nú getum við farið að skipuleggja æfingarleiki sem henta okkur fyrir lokakeppnina. Leiki sem undirbúa okkur sem best fyrir að mæta þeim þjóðum sem eru með okkur í riðli. Það verður líka spennandi að fylgjast með því hvernig staðan á leikmannahópnum verður í lokaundirbúningnum því ég vona svo sannarlega að við séum búnir með okkar skammt af meiðslavandræðum. Þó svo að það hafi auðvitað líka þjappað okkur saman og gefið okkur margt að bregðast við þessu ástandi með þeim hætti sem við gerðum," segir Guðmundur.

Ítarlegra viðtal við Guðmund birtist í Fréttablaðinu á morgun.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×