Innlent

Helmingurinn af flugeldunum selst á morgun

Boði Logason skrifar
Flugeldasalan gengur vel í ár.
Flugeldasalan gengur vel í ár.
„Þetta gengur bara mjög vel, við erum á pari við árið í fyrra," segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann hvetur fólk til að koma í dag og klára flugeldakaupin.

„Það er langmest í dag og á morgun, ég hvet fólk til að mæta í dag og kíkja á vöruúrvalið hjá okkur og fá betri þjónustu, við erum líka vel mönnuð á morgun," segir Kristinn. „Fjölskyldupakkarnir eru stórir og vinsælir hjá okkur. Einnig eru miðnæturbomburnar vinsælar sem og terturnar okkar. Það hefur verið aukning hjá okkur í tertusölunni," segir Kristinn en meðalstórar tertur kosta á bilinu 10 til 15 þúsund krónur.

Flugeldasalan hófst 28. desember og lýkur á morgun. Á gamlársdag er mesta salan, eða 50 prósent af tekjum flugeldasölunnar. „Það hefur verið þannig síðustu ár og við erum á svipuðu róli og í fyrra."

Hann segir að samkeppnisaðilar Landsbjargar hafi haldið því fram að vera fylla tómarúm í úrvali á risatertum. „Það er bara ekki rétt, við erum með mikið úrval af risatertum. Það er alltaf góð sala á þeim, oft er fólk saman með veislur og kaupir þá nokkrar saman."

Og hann fagnar veðurspánni. „Það hefur alltaf jákvæð áhrif á flugeldasölu þegar að veðurspáin er góð, svo þetta lítur vel út."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×