Lífið

Steindi jr. í sinni fyrstu kvikmynd

Steindi jr. er kominn með hlutverk í sinni fyrstu kvikmynd eftir handriti Þorsteins Guðmundssonar. Reynir Lyngdal leikstýrir
Steindi jr. er kominn með hlutverk í sinni fyrstu kvikmynd eftir handriti Þorsteins Guðmundssonar. Reynir Lyngdal leikstýrir

„Það hvílir mikil leynd yfir hlutverkinu en ég get sagt að ég verð ekki Steindi heldur önnur persóna,“ segir Steindi jr. grínistinn góðkunni. Steindi sló eftirminnilega í gegn á síðasta vetri í þáttunum Steindinn okkar en frægðarsólin virðist hvergi nærri hætt að rísa. Því nú hefur Steindi landað hlutverki í kvikmyndinni Okkar eigin Osló sem leikstýrt er af Reyni Lyngdal eftir handriti Þorsteins Guðmundssonar.

Steindi segist vera ákaflega spenntur fyrir þessum nýja starfsvettvangi en meðal mótleikara hans eru áðurnefndur Þorsteinn, Brynhildur Guðjónsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Laddi. Tökur hefjast á þriðjudaginn í næstu viku á Þingvöllum en svo heldur tökuliðið til Osló í lok september. Myndin er kolsvört gamanmynd um fjölskyldu sem er ekki stödd á sínum besta stað í lífinu.

Steindi sjálfur er ákaflega upptekinn um þessar mundir því hópurinn á bak við Steindann okkar situr nú við skriftir fyrir aðra þáttaröðina. Þeir fengu góðan liðsstyrk fyrr á þessu ári þegar Magnús Leifsson varð þriðji maðurinn í hópnum.

„Við byrjuðum í síðustu viku og ég hlakka alveg rosalega til. Okkur gengur vel og erum strax komnir með mikið af efni,“ útskýrir Steindi en tökur á þættinum eiga að hefjast í október. Steindi segir ekki koma til greina að breyta verklaginu í kringum þættina þótt hann og Ágúst Bent geri þá nánast bara tveir einir. „Nei, við treystum engum öðrum fyrir þessu.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.