Viðskipti erlent

Iceland Spring með samning við Manhattan Beer

Iceland Spring hefur náð samning við Manhattan Beer um dreifingu á vatni félagsins í New York, Long Island og nærliggjandi héruðum. Vatninu er tappað á flöskur af Ölgerðinni úr sérstökum brunni í Heiðmörk.

Ölgerðin á 20% hlut í Iceland Spring en 50% eru í eigu fjárfesta frá Mið-Austurlöndum og 30% í eigu bandaríska félagsins Pure Holding. Þá er Iceland Spring með sérstakan samning við Kolvið og plantar trjám á Íslandi í samræmi við magn kolefnisútblásturs sem myndast við flutning á vatninu til Bandaríkjanna.

Í frétt um málið á vefsíðunni bevnet.com segir að Manhattan Beer sjái um dreifingu fyrir Coors bruggverksmiðjurnar, Crown Imports og Boston Beer auk annarra.

David Lomnitz forstjóri Iceland Spring segir að samningurinn við Manhattan Beer sé einstakt tækifæri fyrir félagið. Sérfræðiþekking Manhattan Beer muni gera þeim kleyft að byggja upp starfsemi Iceland Spring í New York og nágrenni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×