Lífið

Saman í öll jólaboðin

Tobba og Kalli hlakka til að halda upp á fyrstu jólin sín saman en borða hvort í sínu lagi á aðfangadagskvöld.Fréttablaðið/valli
Tobba og Kalli hlakka til að halda upp á fyrstu jólin sín saman en borða hvort í sínu lagi á aðfangadagskvöld.Fréttablaðið/valli
„Það má segja að Tobba sé að fjölskylduvæða mig þessi jólin. Ég fer í fleiri jólaboð í ár en í fyrra en held þó í mínar hefðir,“ segir Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og meðlimur Baggalúts, um hvernig jólahaldi hans og Þorbjargar Marinósdóttur, Tobbu eins og hún er kölluð, er háttað.

Þau byrjuðu saman á árinu en ætla að vera hvort í sínu lagi yfir matinn á aðfangadagskvöld og hittast svo á eftir. „Það eru fleiri fjölskylduboð hjá henni en mér yfir hátíðarnar og ég fer samviskusamlega í þau öll, sem er bara gaman því fjölskyldan hennar er svo hress og skemmtileg,“ segir Kalli en hann segist ekkert vera stressaður þótt hann sé að fara að hitta sum skyldmenni Tobbu í fyrsta sinn. „Nei, ég er ekkert stressaður og hlakka bara til.“

Þegar Fréttablaðið náði tali af Kalla var hann á leiðinni í skötuboð eða skötumessu eins og hann kallaði það og svo hangikjöt hjá foreldrum Tobbu á Þorláksmessukvöld. Hann segist löngu búinn að kaupa jólagjöfina handa kærustunni en hann þáði smá hjálp frá tengdamóður sinni með gjafavalið. „Ég gef henni tvo pakka. Annan keypti ég fyrir löngu en svo fékk ég aðstoð frá tengdamóður minni með seinni pakkann enda þekkir hún dóttur sína út og inn. Það er gott að eiga góða tengdamóður,“ segir Kalli að lokum og heldur af stað í langþráða skötuveislu. - áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.