Milljarðurinn sem Jón Ásgeir Jóhannesson fékk frá Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, var greiddur í tveimur færslum síðla árs 2008, um það leyti sem íslenska bankakerfið riðaði til falls.
Heimildir Vísis herma að önnur greiðslan hafi verið upp á 900 milljónir króna og hin upp á 100 milljónir. Ástæðan fyrir þessu mun vera sú að ekki er tæknilega framkvæmanlegt að millifæra milljarð eða meira í einni greiðslu. Greiðslunum virðist hafa verið velt tólf sinnum inn og út úr Fons á reikninga í eigu félagsins, áður en þær lentu inni á persónulegum reikningi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Engar skýringar eru gefnar á greiðslunum og finnast engin skjöl um þær í bókhaldi fons. Því virðist vera um að ræða það sem kallast á fagmáli „riftanlegur gjafagerningur".