Ólafur Stephensen: Mótmælt á röngum stöðum 24. apríl 2010 07:30 Eftir bankahrunið hefur sú ógeðfellda breyting orðið í íslenzku samfélagi, að einhver hópur manna telur sjálfsagt að gera aðsúg að heimilum manna til að tjá meiningu sína. Sumir hópar og einstaklingar, sem hafa siglt undir því flaggi að vilja koma skoðun sinni á framfæri, hafa í skjóli nætur unnið skemmdarverk á húseignum fólks. Forsvarsmenn fyrirtækja í orku- og stóriðjugeiranum máttu þola slíkt, jafnframt sumir forvígismenn hinna föllnu banka. Fyrir rúmu ári tók fólk, sem vildi mótmæla meintum mannréttindabrotum gegn útlendingum hér á landi, upp á því að mótmæla við heimili dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar. Og braut þar með gegn sjálfsögðum mannréttindum þessara einstaklinga, að fá að vera í friði á heimili sínu. Nú síðast hefur verið mótmælt við heimili stjórnmálamanna, sem nefndir eru í rannsóknarskýrslu Alþingis vegna tengsla við bankana. Fólk hefur safnazt saman við heimili þessara einstaklinga og neitað að fara, þótt það hafi verið beðið um það af íbúum og lögreglu. Þetta er skýrt brot á fyrstu málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar, sem er einföld í sniðum: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu." Uppákomur á borð við þessa eru því miður ekki einsdæmi í stjórnmálasögunni. Árið 1932, í kjölfar þess að Tryggvi Þórhallsson, þáverandi forsætisráðherra, rauf þing og boðaði til kosninga, stóð múgur manna, einkum kjósendur Sjálfstæðisflokksins samkvæmt samtímaheimildum, fyrir daglegum æsingum og ólátum við Ráðherrabústaðinn, sem þá var heimili forsætisráðherra. Tryggvi átti sjö börn, flest lítil. Sum þeirra urðu fyrir aðkasti vegna föður síns og þurfti að taka þau úr skóla tímabundið. Sagan af óspektunum við hús Tryggva Þórhallssonar hefur löngum verið talin þeim til skammar, sem tóku þátt í þeim. Sennilega vonuðu flestir að stjórnmálabarátta á Íslandi hefði færzt upp á hærra plan, enda langt um liðið frá hinum róstusömu kreppuárum. Það þarf ekki mikla tilfinningagreind til að átta sig á hvaða áhrif það getur haft á börn þegar múgur safnast saman fyrir utan heimili þeirra og gerir hróp að foreldrum þeirra. Enginn ætti að geta leyft sér að svipta lítið fólk þannig öryggi eigin heimilis. Lögreglan gerir rétt í að hóta þeim handtöku, sem halda uppteknum hætti og gera aðsúg að heimilum fólks. Athæfið er brot gegn lögum og stjórnarskrá. Auðvitað eiga menn rétt á að mótmæla orðum og gerðum stjórnmálamanna og krefjast afsagnar þeirra. Þeir geta gert það með því að efna til friðsamlegra mótmæla við Alþingi eða flokksskrifstofur, með því að skrifa greinar eða senda bréf. En heimili fólks á að láta í friði. Þeir sem hafa hímt við heimili stjórnmálamanna á kvöldin eiga að skammast sín og finna sér réttan vettvang til að mótmæla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun
Eftir bankahrunið hefur sú ógeðfellda breyting orðið í íslenzku samfélagi, að einhver hópur manna telur sjálfsagt að gera aðsúg að heimilum manna til að tjá meiningu sína. Sumir hópar og einstaklingar, sem hafa siglt undir því flaggi að vilja koma skoðun sinni á framfæri, hafa í skjóli nætur unnið skemmdarverk á húseignum fólks. Forsvarsmenn fyrirtækja í orku- og stóriðjugeiranum máttu þola slíkt, jafnframt sumir forvígismenn hinna föllnu banka. Fyrir rúmu ári tók fólk, sem vildi mótmæla meintum mannréttindabrotum gegn útlendingum hér á landi, upp á því að mótmæla við heimili dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar. Og braut þar með gegn sjálfsögðum mannréttindum þessara einstaklinga, að fá að vera í friði á heimili sínu. Nú síðast hefur verið mótmælt við heimili stjórnmálamanna, sem nefndir eru í rannsóknarskýrslu Alþingis vegna tengsla við bankana. Fólk hefur safnazt saman við heimili þessara einstaklinga og neitað að fara, þótt það hafi verið beðið um það af íbúum og lögreglu. Þetta er skýrt brot á fyrstu málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar, sem er einföld í sniðum: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu." Uppákomur á borð við þessa eru því miður ekki einsdæmi í stjórnmálasögunni. Árið 1932, í kjölfar þess að Tryggvi Þórhallsson, þáverandi forsætisráðherra, rauf þing og boðaði til kosninga, stóð múgur manna, einkum kjósendur Sjálfstæðisflokksins samkvæmt samtímaheimildum, fyrir daglegum æsingum og ólátum við Ráðherrabústaðinn, sem þá var heimili forsætisráðherra. Tryggvi átti sjö börn, flest lítil. Sum þeirra urðu fyrir aðkasti vegna föður síns og þurfti að taka þau úr skóla tímabundið. Sagan af óspektunum við hús Tryggva Þórhallssonar hefur löngum verið talin þeim til skammar, sem tóku þátt í þeim. Sennilega vonuðu flestir að stjórnmálabarátta á Íslandi hefði færzt upp á hærra plan, enda langt um liðið frá hinum róstusömu kreppuárum. Það þarf ekki mikla tilfinningagreind til að átta sig á hvaða áhrif það getur haft á börn þegar múgur safnast saman fyrir utan heimili þeirra og gerir hróp að foreldrum þeirra. Enginn ætti að geta leyft sér að svipta lítið fólk þannig öryggi eigin heimilis. Lögreglan gerir rétt í að hóta þeim handtöku, sem halda uppteknum hætti og gera aðsúg að heimilum fólks. Athæfið er brot gegn lögum og stjórnarskrá. Auðvitað eiga menn rétt á að mótmæla orðum og gerðum stjórnmálamanna og krefjast afsagnar þeirra. Þeir geta gert það með því að efna til friðsamlegra mótmæla við Alþingi eða flokksskrifstofur, með því að skrifa greinar eða senda bréf. En heimili fólks á að láta í friði. Þeir sem hafa hímt við heimili stjórnmálamanna á kvöldin eiga að skammast sín og finna sér réttan vettvang til að mótmæla.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun