Körfubolti

Guðmundur: Erum alltof sveiflukenndir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðmundur Jónsson leikmaður Njarðvíkur.
Guðmundur Jónsson leikmaður Njarðvíkur. Mynd/Daníel
„Við byrjuðum seinni hálfleikinn mjög vel, vörnin var að halda og þeir skoruðu bara 2 stig fyrstu fimm mínúturnar og munurinn er aðeins fimm stig. Síðan hrökk þetta í baklás hjá okkur," sagði Guðmundur Jónsson leikmaður Njarðvíkur eftir 92-69 tap gegn KR í DHL höllinni.

„Þeir setja tvær körfur og við fórum í okkar horn, vorum skíthræddir við þá og þeir kláruðu okkur í þriðja leikhluta. Það slokknaði algerlega á okkur eftir að KR tóku leikhlé og margir duttu algerlega út úr leiknum, "

Njarðvík hófu báða hálfleikana vel og sérstaklega seinni hálfleik þegar þeir minnkuðu forskot KR niður í 5 stig en þá komst KR í gang og lagði grunninn af sigrinum í 3 leikhluta.

„Við erum allt of sveiflukenndir, við þurfum að finna einhvern stöðugleika og þegar það kemur verða fá lið sem stoppa okkur. Það afsakar það þó ekki að við getum spilað mjög illa inn á milli. Við stóðum vel í KR þegar við vorum að spila ágætlega en engan stjörnuleik en eftir það klikkaði allt hjá okkur."

Njarðvík var spáð 6. Sæti fyrir tímabilið en Guðmundur segir að það þýði ekki að óttast nein lið

„Það er erfitt að koma í DHL höllina en þetta er náttúrulega bara eins og að koma á hvern annan völl. Þetta lið er ekkert ósigrandi eins og margir halda, það þarf bara að mæta og spila í allar 40 mínúturnar en ekki í 10 eins og við gerðum, "

„Auðvitað er það þannig að því stærri klúbb sem maður mætir því tilbúnari á maður að vera, maður á að vera tilbúinn helst daginn áður en það var eitthvað sem klikkaði hjá okkur hérna, við fórum ekki eftir því sem þjálfarinn sagði," sagði Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×