Körfubolti

Þriðja mesta sveiflan í sögu lokaúrslitanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Úrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla í körfubolta í ár hefur byrjað á tveimur stórum heimasigrum og sveiflan hefur verið svo mikil á milli leikja að ástæða er að fletta upp í sögubókunum.

Snæfell svaraði fyrir 19 stiga tap liðsins í fyrsta leiknum í Keflavík með því að vinna 22 stiga sigur í Hólminum í gær. Þetta er 41 stigs sveifla milli leikja og aðeins tvisvar áður hefur orðið meiri sveifla milli leikja í lokaúrslitum í úrslitakeppni karla.

Metið er síðan í úrslitaeinvígi Grindavíkur og Njarðvíkur frá árinu 1994. Grindavík komst þá í 2-1 í úrslitaeinvíginu með öruggum 23 stiga sigri á heimavelli. Njarðvíkingar unnu næsta leik hinsvegar með 28 stigum í Njarðvík og tryggðu sér síðan titilinn með eins stigs sigri í oddaleiknum í Grindavík.

Tveimur árum áður hafði Keflavík gert hið sama. Valur vann þá 28 stiga sigur í keflavík og gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í næsta leik. Þann leik vann Keflavík hinsvegar með 22 stigum og tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með 9 stiga sigri á heimavelli.



Mesta sveifla milli leikja í lokaúrslitum karla


51 stig á milli 3. og 4. leiks í einvígi Grindavíkur og Njarðvíkur 1994

3. leikur: Grindavík-Njarðvík 90-67 (Grindavík +23)

4. leikur: Njarðvík-Grindavík 93-65 (Njarðvík +28)

Framhald: Njarðvík vann líka næsta leik í Grindavík og tryggði sér titilinn

50 stig á milli 3. og 4. leiks í einvígi Keflavíkur og Val 1992

3. leikur: Keflavík-Valur 67-95 (Valur +28)

4. leikur: Valur-Keflavík 56-78 (Keflavík +22)

Framhald: Keflavík vann líka næsta leik á heimavelli og tryggði sér titilinn

41 stig á milli 1. og 2. leiks í einvígi Keflavíkur og Snæfells 2010

1. leikur: Keflavík-Snæfell 97-78 (Keflavík +19)

2. leikur: Snæfell-Keflavík 91-69 (Snæfell +22)

Framhald: Þriðji leikurinn í Keflavík á morgun klukkan 16.00.

41 stig á milli 1. og 2. leiks í einvígi Grindavíkur og Keflavíkur 1996

1. leikur: Grindavík-Keflavík 66-76 (Keflavík +9)

2. leikur: Keflavík-Grindavík 54-86 (Grindavík +32)

Framhald: Grindavík vann líka næsta leik á heimavelli og loks titilinn í sjötta leik.

39 stig á milli 1. og 2. leiks í einvígi Njarðvíkur og Keflavíkur 1991

1. leikur: Njarðvík-Keflavík 96-59 (Njarðvík +37)

2. leikur: Keflavík-Njarðvík 75-73 (Keflavík +2)

Framhald: Keflavík vann líka næsta leik á útivelli en Njarðvík vann tvo síðustu leikina og titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×