Milli steins og sleggju Þorvaldur Gylfason skrifar 21. janúar 2010 06:00 Eftir bankahrunið í október 2008 leit Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svo á, að það þyrfti ekki að taka efnahagslífið í landinu nema tvö ár að komast aftur á réttan kjöl. Þessi ályktun var að vísu í bjartsýnna lagi, þótti mér þá, en hún var reist á vandlegri skoðun sérfræðinga sjóðsins á tiltækum gögnum. Ein lykilforsendan, sem Seðlabanki Íslands bjó sjóðnum í hendur, var, að erlendar skuldir þjóðarbúsins í árslok 2009 myndu nema 160 prósentum af landsframleiðslu að loknum gríðarlegum afskriftum á skuldum gömlu bankanna við erlenda lánardrottna. Afskriftirnar voru taldar nema um fimmfaldri landsframleiðslu. Sjóðurinn taldi, að landsframleiðsla myndi standa í stað 2010 og taka síðan að vaxa aftur 2011 og eftirleiðis um 4 prósent á ári, sem er mikill vöxtur í sögulegu samhengi. Þrefaldur forsendubresturÞessar vonir brugðust. Til þess liggja ýmsar ástæður, þótt hér verði látið duga að tilgreina þrjár.Í fyrsta lagi reyndust tölur Seðlabankans um erlendar skuldir þjóðarbúsins alvarlega vanmetnar. Nú eru skuldirnar taldar hafa numið 307 prósentum af landsframleiðslu í árslok 2009, ekki 160 prósentum. Seðlabankinn vanmat með öðrum orðum skuldirnar um næstum helming. Þetta vanmat á skuldunum í upphafi hefur sett strik í reikninginn með því að auka til muna áhyggjur manna af skuldaþoli þjóðarbúsins, svo sem skiljanlegt er, og tefja þannig fyrir lausn IceSave-málsins.Í annan stað hétu stjórnvöld því við gerð efnahagsáætlunarinnar með fulltingi AGS í nóvember 2008, að þau myndu leysa ágreininginn við Breta og Hollendinga um IceSave-skuldbindingarnar. Þetta fyrirheit var hluti af skriflegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Ljóst mátti vera, að stuðningur AGS og Norðurlanda við áætlunina gæti reynzt vera háður því, að þetta heit yrði efnt, enda hafa stjórnvöld statt og stöðugt sagt, að þau myndu standa við skuldbindingar ríkisins erlendis. Slíkar yfirlýsingar stjórnvalda eru bindandi að þjóðarétti eins og Ragnhildur Helgadóttir prófessor hefur bent á. Ríkisstjórnin stóð fyrir sitt leyti við heitið, en hún reyndist ekki hafa meiri hluta Alþingis að baki sér fyrr en fimmtán mánuðum eftir hrun. Og þá kaus forseti Íslands að grípa fram fyrir hendurnar á Alþingi líkt og Alþingi hafði gripið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni sumarið 2009. Nú stefnir málið í strand í þjóðaratkvæðagreiðslu.Í þriðja lagi þykir mörgum það ekki boðlegt að þurfa sem skattgreiðendur að axla þungar kvaðir fram í tímann af völdum afglapa og hugsanlegra lögbrota í einkabankarekstri, á meðan sökudólgarnir hafa ekki enn verið dregnir til ábyrgðar að lögum og stjórnvöld sýna því máli næsta lítinn áhuga. Áhugaleysið kann að helgast af því, að bankarnir og skyld fyrirtæki dældu fé í þrjá af fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum, svo sem Ríkisendurskoðun hefur nú upplýst. Eitt er að fella sig úr fjarlægð við staðfestingu Alþingis á erlendum skuldbindingum. Annað mál, finnst mörgum, er að láta bjóða sér inn í kjörklefa til að staðfesta gerninginn með atkvæði sínu. Auk þess henta hvorki skuldamál né samningar við erlend ríki til þjóðaratkvæðagreiðslu, og IceSave-málið er hvort tveggja í senn. Gömlu ráðin?Strandi IceSave-málið í þjóðaratkvæðagreiðslunni í febrúar eða marz, munu Norðurlöndin næstum örugglega hætta fjárstuðningi sínum við Ísland, enda verða úrslitin túlkuð þar sem svo, að vöflur séu á Íslendingum frammi fyrir bindandi skuldbindingum Íslands við önnur lönd. Fari svo, mun AGS þá annaðhvort einnig þurfa að draga sig í hlé og skilja landið eftir á berangri, þar eð sjóðurinn má ekki samkvæmt reglum reiða fram meira fé en hann hefur þegar boðið, eða bjóða fram stuðning við nýja áætlun með sýnu harkalegri aðgerðum í fjármálum ríkisins en nú standa fyrir dyrum. Þá harðnar á dalnum. Hafni stjórnvöld slíku boði, munu þau líklega telja sig nauðbeygð að grípa til gömlu ráðanna, hleypa verðbólgunni á skrið með hjálp Seðlabankans án verðtryggingar og leggja til atlögu við lífeyrissjóðina, þótt þeir eigi að heita eign lífeyrisþega. Hætti ríkisstjórnin við að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, verður hún sökuð um að brjóta stjórnarskrána líkt og 2004.Stjórnmálastéttin hefur stefnt endurreisn efnahagslífsins í voða. Fyrir hálfu öðru ári virtist sem kreppan yrði skammvinn, en nú er hætta á þungum afturkipp og upplausn. Ríkisstjórnin, Alþingi og forseti Íslands bera þunga ábyrgð á þeirri stöðu, sem nú er komin upp. Þetta þurfti ekki að fara svona. Þjóðin getur gripið í taumana, nema hún kjósi heldur að steypa sér fram af hengifluginu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Eftir bankahrunið í október 2008 leit Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svo á, að það þyrfti ekki að taka efnahagslífið í landinu nema tvö ár að komast aftur á réttan kjöl. Þessi ályktun var að vísu í bjartsýnna lagi, þótti mér þá, en hún var reist á vandlegri skoðun sérfræðinga sjóðsins á tiltækum gögnum. Ein lykilforsendan, sem Seðlabanki Íslands bjó sjóðnum í hendur, var, að erlendar skuldir þjóðarbúsins í árslok 2009 myndu nema 160 prósentum af landsframleiðslu að loknum gríðarlegum afskriftum á skuldum gömlu bankanna við erlenda lánardrottna. Afskriftirnar voru taldar nema um fimmfaldri landsframleiðslu. Sjóðurinn taldi, að landsframleiðsla myndi standa í stað 2010 og taka síðan að vaxa aftur 2011 og eftirleiðis um 4 prósent á ári, sem er mikill vöxtur í sögulegu samhengi. Þrefaldur forsendubresturÞessar vonir brugðust. Til þess liggja ýmsar ástæður, þótt hér verði látið duga að tilgreina þrjár.Í fyrsta lagi reyndust tölur Seðlabankans um erlendar skuldir þjóðarbúsins alvarlega vanmetnar. Nú eru skuldirnar taldar hafa numið 307 prósentum af landsframleiðslu í árslok 2009, ekki 160 prósentum. Seðlabankinn vanmat með öðrum orðum skuldirnar um næstum helming. Þetta vanmat á skuldunum í upphafi hefur sett strik í reikninginn með því að auka til muna áhyggjur manna af skuldaþoli þjóðarbúsins, svo sem skiljanlegt er, og tefja þannig fyrir lausn IceSave-málsins.Í annan stað hétu stjórnvöld því við gerð efnahagsáætlunarinnar með fulltingi AGS í nóvember 2008, að þau myndu leysa ágreininginn við Breta og Hollendinga um IceSave-skuldbindingarnar. Þetta fyrirheit var hluti af skriflegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Ljóst mátti vera, að stuðningur AGS og Norðurlanda við áætlunina gæti reynzt vera háður því, að þetta heit yrði efnt, enda hafa stjórnvöld statt og stöðugt sagt, að þau myndu standa við skuldbindingar ríkisins erlendis. Slíkar yfirlýsingar stjórnvalda eru bindandi að þjóðarétti eins og Ragnhildur Helgadóttir prófessor hefur bent á. Ríkisstjórnin stóð fyrir sitt leyti við heitið, en hún reyndist ekki hafa meiri hluta Alþingis að baki sér fyrr en fimmtán mánuðum eftir hrun. Og þá kaus forseti Íslands að grípa fram fyrir hendurnar á Alþingi líkt og Alþingi hafði gripið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni sumarið 2009. Nú stefnir málið í strand í þjóðaratkvæðagreiðslu.Í þriðja lagi þykir mörgum það ekki boðlegt að þurfa sem skattgreiðendur að axla þungar kvaðir fram í tímann af völdum afglapa og hugsanlegra lögbrota í einkabankarekstri, á meðan sökudólgarnir hafa ekki enn verið dregnir til ábyrgðar að lögum og stjórnvöld sýna því máli næsta lítinn áhuga. Áhugaleysið kann að helgast af því, að bankarnir og skyld fyrirtæki dældu fé í þrjá af fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum, svo sem Ríkisendurskoðun hefur nú upplýst. Eitt er að fella sig úr fjarlægð við staðfestingu Alþingis á erlendum skuldbindingum. Annað mál, finnst mörgum, er að láta bjóða sér inn í kjörklefa til að staðfesta gerninginn með atkvæði sínu. Auk þess henta hvorki skuldamál né samningar við erlend ríki til þjóðaratkvæðagreiðslu, og IceSave-málið er hvort tveggja í senn. Gömlu ráðin?Strandi IceSave-málið í þjóðaratkvæðagreiðslunni í febrúar eða marz, munu Norðurlöndin næstum örugglega hætta fjárstuðningi sínum við Ísland, enda verða úrslitin túlkuð þar sem svo, að vöflur séu á Íslendingum frammi fyrir bindandi skuldbindingum Íslands við önnur lönd. Fari svo, mun AGS þá annaðhvort einnig þurfa að draga sig í hlé og skilja landið eftir á berangri, þar eð sjóðurinn má ekki samkvæmt reglum reiða fram meira fé en hann hefur þegar boðið, eða bjóða fram stuðning við nýja áætlun með sýnu harkalegri aðgerðum í fjármálum ríkisins en nú standa fyrir dyrum. Þá harðnar á dalnum. Hafni stjórnvöld slíku boði, munu þau líklega telja sig nauðbeygð að grípa til gömlu ráðanna, hleypa verðbólgunni á skrið með hjálp Seðlabankans án verðtryggingar og leggja til atlögu við lífeyrissjóðina, þótt þeir eigi að heita eign lífeyrisþega. Hætti ríkisstjórnin við að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, verður hún sökuð um að brjóta stjórnarskrána líkt og 2004.Stjórnmálastéttin hefur stefnt endurreisn efnahagslífsins í voða. Fyrir hálfu öðru ári virtist sem kreppan yrði skammvinn, en nú er hætta á þungum afturkipp og upplausn. Ríkisstjórnin, Alþingi og forseti Íslands bera þunga ábyrgð á þeirri stöðu, sem nú er komin upp. Þetta þurfti ekki að fara svona. Þjóðin getur gripið í taumana, nema hún kjósi heldur að steypa sér fram af hengifluginu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun