Körfubolti

Hlynur: Sólin skín ekki endalaust

Henry Birgir Gunnarsson í DHL-höllinni skrifar
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel

„Að vinna KR hérna þriðja skiptið í röð í alveg hreint fáranlegri stemningu er svo sannarlega með því sætara," sagði Snæfellingurinn Hlynur Bæringsson eftir magnaðan sigur Snæfells á KR í kvöld. „Það voru forréttindi að fá að taka þátt í þessum leik því stemningin var lygileg."

Snæfell var næstum búið að kasta frá sér unnum leik en KR náði að minnka 20 stiga forksot þeirra niður í 2 stig.

„Við töluðum saman á vellinum þegar KR var alveg komið ofan í hálsmálið á okkur. Minntum sjálfa okkur á það að við værum enn yfir og ekki búnir að tapa þessu. Þeir hittu algjörlega úr öllu í einhverjar þrjár mínútur en sólin skín ekki endalaust, hún sest alltaf á endanum. Við höfðum alltaf trú á þessu og þetta lið brotnar ekki."

Snæfell mætir nú Keflavík í úrslitum Íslandsmótsins en Keflavík hefur farið illa með Snæfell í gegnum tíðina.

„Sú rimma leggst mjög vel í mig. Við unnum þá tvisvar í vetur og þar af í Keflavík. Þeir eru samt búnir að spila fáranlega vel upp á síðkastið. Margir vilja kannski meina að þeir séu besta liðið en ég er ekkert sammála því. Við getum alveg unnið þetta lið," sagði Hlynur en er þetta ár Snæfells?

„Keflavík hefur unnið Snæfell áður en Keflavík hefur aldrei unnið þetta lið. Þeir hafa unnið mig nokkrum sinnum. Það getur vel verið að þetta sé okkar ár og það væri ekki leiðinlegt að tryggja sér titilinn rétt áður en tvíburarnir mínir koma í heiminn.  Þá myndi maður vilja fá Groundhog day og upplifa þann dag aftur og aftur," sagði Hlynur og glotti við tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×