Körfubolti

Tómas Holton hættur með Fjölnisliðið eftir aðeins tvo leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Holton stýrir Fjölnisliðinu á dögunum.
Tómas Holton stýrir Fjölnisliðinu á dögunum. Mynd/Valli
Tómas Holton er hættur að þjálfa Fjölni í Iceland Express deild karla eftir aðeins tvo leiki. Tómas Holton tilkynnti Steinari Davíðssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Fjölnis, þetta í gær samkvæmt frétt á karfan.is. Fjölnir hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Snæfelli og Stjörnunni.

„Mér hefur ekki litist á hvaða áhrif starfið hefur haft á mig. Hvort sem manni líkar betur eða verr fylgir svona starfi nokkuð mikið stress. Þetta stress hefur haft meiri áhrif á mig en ég hefði viljað. Mér fannst ég verða að taka ábyrgð á sjálfum mér og hætta, þó það sé erfitt að viðurkenna að maður ráði ekki við eitthvað," sagði Tómas Holton í viðtali við karfan.is

Tómas Holton var að snúa aftur í þjálfun eftir tíu ára fjarveru en hann hafði ekki þjálfað lið í úrvalsdeild karla síðan að hann tók við liði Skallagríms á miðju tímabili 1999-2000.

Fjölnismenn eru að leita að nýjum þjálfara en Tómas Holton er annar þjálfari liðsins á stuttum tíma sem hættir skyndilega með liðið en í sumar hætti Bárður Eyþórsson líka með liðið af persónulegum ástæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×