Innlent

Unnu saman að listsköpun

Guðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra, var viðstaddur þegar ljósmyndasýningin opnaði í gær. Mynd/Hreinn Magnússon
Guðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra, var viðstaddur þegar ljósmyndasýningin opnaði í gær. Mynd/Hreinn Magnússon

Nemar við Listaháskóla Íslands unnu að listsköpun í samstarfi við fólk sem upplifir fátækt eða félagslega einangrun og er hægt að sjá afraksturinn á ljósmyndasýningu sem opnuð var í gær. Verkefnið er samstarfsverkefni Listaháskólans og Evrópuárs gegn fátækt og félagslegri einangrun en auk þeirra komu Hlutverkasetur, Hjálparstofnun kirkjunnar og Kvennasmiðjan að framkvæmd verkefnisins.

„Verkefnið er nokkuð óvenjulegt, en tilgangurinn var að leiða saman ólíka hópa og nota listformið til að tjá raunveruleika þeirra sem kljást við fátækt eða félagslega einangrun. Verkefnið er í raun samevrópskt, en svipuðum verkefnum var hrundið af stað í öllum löndum Evrópusambandsins og í Noregi í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun," segir Linda Rós Alfreðsdóttir hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem hefur umsjón með Evrópuárinu á Íslandi.

„Ég held að allir þeir sem hafa komið að verkinu hafi haft gaman að því, og það hefur sannarlega víkkað sjóndeildarhring allra. Hver nemandi starfaði með einstaklingi sem hefur reynslu af fátækt eða félagslegri einangrun og voru verkefnin því unnin í pörum. Ég hvet alla til að koma og skoða sýninguna,“ segir Eric Wolf sem kenndi á námskeiðinu við Listaháskóla Íslands.

Ljósmyndasýningin fer fram í húsnæði Samhjálpar í Borgartúni 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×