Lífið

Spila á brasilískri tónlistarhátíð

Sindri Már Sigfússon kemur fram sem Sin Fang á tónlistarhátíð í Brasilíu. Fréttablaðið/Arnþór
Sindri Már Sigfússon kemur fram sem Sin Fang á tónlistarhátíð í Brasilíu. Fréttablaðið/Arnþór
Hljómsveitin Sin Fang, sem áður hét Sin Fang Bous, spilar á tónlistarhátíð í Brasilíu 6. og 8. ágúst. Hátíðin nefnist Rojo-Nova og fer fram í borginni Sao Paulo.

„Tónleikarnir eru í listasafni. Þetta er hátíð sem er í gangi í mánuð," segir Sindri Már Sigfússon, sem er einnig forsprakki hljómsveitarinnar Seabear. Sóley Stefánsdóttir úr Seabear kemur einnig fram á hátíðinni en hún, Seabear og Sin Fang eru á mála hjá þýska útgáfufyrirtækinu Morr Music. „Það var haft samband við plötufyrirtækið sem ég og Sóley erum hjá. Þeir vildu fá einhverja hljómsveit frá Morr," útskýrir Sindri, sem var staddur í Englandi á leiðinni út þegar blaðamaður ræddi við hann.

Sindri hlakkar til tónleikanna en flugið í gær var samt ekkert til að hrópa húrra yfir. „Þetta eru einhverjir tíu eða ellefu tímar. Við vorum að skoða þetta á landakorti og þetta er rétt hjá Afríku. En það hefur enginn af okkur nokkurn tímann komið til Suður-Ameríku þannig að þetta er dálítið spennandi."

Hópurinn kemur aftur heim á mánudaginn og fer síðan strax aftur til Evrópu þar sem Seabear mun spila á nokkrum tónlistarhátíðum. Hljóðblöndun á annarri plötu Sin Fang fer síðan fram um miðjan september og er platan væntanleg í búðir fyrir jól.

En hvers vegna styttirðu nafnið í Sin Fang? „Ég veit það ekki. Þetta gerðist bara að sjálfu sér. Það er enginn Bous þannig að þetta datt bara út. Þetta var of flókið."

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.