Körfubolti

Hlynur: Hefði ekki sofið fram á haust hefðum við tapað aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells. Mynd/Daníel
Ef það var einhver sem átti það skilið að verða Íslandsmeistari í Keflavík í gær þá var það Snæfellingurinn Hlynur Bæringsson sem kórónaði frábært tímabil og magnaða úrslitakeppni með enn einum stórleiknum í Keflavík í gær. Hlynur var með 21 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar og fékk loksins að taka við þeim stóra.

„Ég held að þetta hafi verið ljúfara fyrir mig að vinna þetta loksins heldur en fyrir nokkurn annan mann," sagði Hlynur eftir leik. Liðinu mistókst að klára þetta heima en kom til Keflavíkur og rassskellti heimamenn. "Við ætluðum okkur þetta bara of mikið í síðasta leik. Ég hefði ekki sofið fram á haust ef við hefðum tapað þessu í enn eitt skiptið. Þetta er ofboðslegur léttir. Mér líður eins og ég hafi verið með fimm tonn á bakinu en náð að losa mig við þau," sagði Hlynur.

„Það hefði enginn búist við að við myndum vinna Keflavík svona stórt og ég veit ekki hvernig við fórum að þessu, ég verð bara að viðurkenna það. Þetta hlýtur samt að vera erfiðasta leið sem lið hefur farið að titlinum," sagði Hlynur.

„Það kaldhæðnislega við þetta er að við urðum bara að vinna út af einni ástæðu. Ég var að kaupa mér hús í Stykkishólmi sem er á Silfurgötu. Ég gat ekki átt heima þar með fjögur silfur á bakinu þannig að ég varð bara að vinna þetta. Það myndi líta svo illa út að fá fjögur silfur í röð og búa á Silfurgötu. Ég hefði þurft að flytja," sagði Hlynur

En hvað reið baggamuninn? „Ingi og menn eins og Pálmi og Jeb Ivey komu okkur yfir síðasta þröskuldinn. Þeir höfðu klárað þetta áður og höfðu ákveðna ró yfir sér," sagði Hlynur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×