Innlent

Getur skapað fordæmi fyrir aðra en kjörna fulltrúa

Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi í Kópavogi
Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi í Kópavogi
Lagastofnun Háskóla Íslands telur að fordæmi geti skapast fyrir aðra en kjörna fulltrúa að fá lögfræðikostnað sinn greiddan úr bæjarsjóði, nái tillaga meirihluta Kópavogsbæjar þess efnis fram að ganga. Það gæti skapað umtalsverðan kostnað fyrir Kópavogsbæ.

Meirihlutinn í Kópavogi vill að bæjarsjóður greiði 600 þúsund króna lögfræðikostnað þriggja bæjarfulltrúa vegna meiðyrðamáls sem Frjáls miðlun höfðaði gegn þeim. Þessu greindum við frá í kvöldfréttum í gær.

Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúar í Kópavogi voru sýknuð í meiðyrðamáli sem fyrirtækið Frjáls miðlun höfðaði vegna ummæla þeirra í blaðagrein um spillingu í viðskiptum bæjarins við fyrirtækið.

Málsbæturnar sem þeim voru dæmdar duga ekki fyrir málskostnaði og var því lögð fram sú tillaga að bæjarsjóður greiddi mismuninn.

Lagastofnun Háskóla Íslands telur að slík heimild geti skapað umtalsverðan kostnað fyrir bæjarsjóð í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna. Fordæmi skapist fyrir aðra en kjörna fulltrúa að fá lögfræðikostnað sinn greiddan úr bæjarsjóði, þeirra sem hafa farið í mál við Kópavogsbæ.

Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segist ekki óttast það. „Nei, vegna þess að langflestir eru með málskostnaðartryggingu inn í sinni heimilistryggingu sem ná yfir öll svona venjuleg mál. Þetta er eitthvað sem kemur inn í okkar starf sem bæjarfulltrúar á vegum bæjarins og við þurfum að fá tryggingu fyrir því að við getum sagt það sem við þurfum að segja án þess að þurfa að reiða fram stórar upphæðir í framhaldinu persónulega."


Tengdar fréttir

Vilja að bæjarbúar borgi reikninginn

Meirihluti bæjarráðs í Kópavogi vill að bæjarsjóður greiði sex hundruð þúsund króna lögfræðikostnað þriggja bæjarfulltrúa vegna meiðyrðamáls sem Frjáls miðlun höfðaði gegn þeim. Einn bæjarfulltrúanna segir eðlilegt að bærinn greiði kostnaðinn, því hann komi til vegna starfa þeirra fyrir Kópavog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×