Innlent

Gamlárshlaup ÍR fer fram í 35. skipti

Árlegt Gamlárshlaup ÍR hefst á gamlársdag klukkan tólf á hádegi. Ræst verður á gatnamótum Hólavallagötu og Túngötu í miðbæ Reykjavíkur.

Gamlárshlaupið hefur farið fram árlega frá árinu 1976 og er þetta því 35. hlaupið.

Fyrsta árið voru þátttakendur 10 en árið 1991 voru þátttakendur í fyrsta sinn fleiri en 100. Síðan hefur þátttakan aukist mikið og 2008 var metþátttaka þegar 760 hlauparar tóku þátt.

Flestir bestu hlauparar landsins hafa tekið þátt í hlaupinu en á síðari árum hefur fjölgað mjög þeim hlaupurum sem ljúka árinu með því að skokka 10 kílómetra í góðum hópi án þess að vera að hugsa um að bæta sinn tíma, og þá gjarnan mætt í skrautlegum búningum og mynda hálfgerða festival stemmingu.

Hlaupaleiðin var nokkurn veginn sú sama í rúmlega 20 ár og var rás- og endamark við ÍR-húsið sem þá var við Túngötu. Upphaflega var hlaupið 9,3 kílómetrar.

Hlaupinu var breytt í 10 kílómetra hlaup árið 1998 og hefur rás- og endamark síðan verið við Ráðhús Reykjavíkur.

Forskráning er opin á hlaup.is en hægt verður að skrá sig á morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur frá klukkan 10:30 þar til 15 mínútum fyrir hlaup.

Frá rásmarki er hlaupið vestur í bæ um Tryggvagötu og út á Lindarbraut á Seltjarnanesi, til baka um Ægissíðu og Suðurgötu að endamarki við Ráðhúsið í Tjarnargötu.

Nánari upplýsingar má finna á vef ÍR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×