Valkostir Íslendinga Sverrir Jakobsson skrifar 12. janúar 2010 06:00 Áratugum saman bjó íslenska þjóðin við skilvirkt og vel rekið bankakerfi. Stærstu bankarnir voru í eigu ríkisins og bjuggu við öflugt aðhald stjórnvalda. Fyrir tæpum áratug tók kerfið hins vegar stakkaskiptum. Stærstu bankarnir voru seldir einkaaðilum en ríkisstjórnum sem stóðu að einkavæðingu bankanna hugkvæmdist ekki að setja lög sem komu í veg fyrir krosseignatengsl, ríflega bónusa stjórnenda eða óhóflegar lántökur bankanna erlendis. Það þótti ekki samræmast þeirri frjálshyggjupólitík sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar ráku en einn af hornsteinum hennar var að einkavæðing bankanna myndi „leysa fjármagn úr læðingi". Því miður reyndust bankarnir eins og Fenrisúlfur og frelsi þeirra kallaði ragnarök yfir íslenskt efnahagslíf. Fyrir fjórum árum fékk einn einkavæddu bankanna, Landsbankinn, leyfi til þess að reka Icesave-innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi og fullvissuðu íslensk stjórnvöld þarlenda ráðamenn ítrekað um að slíkir reikningar væru tryggðir með ríkisábyrgð. Þegar alvarleg fjármálakreppa reið yfir heimsbyggðina haustið 2008 hrundu hinir skuldsettu íslensku einkabankar á fáeinum dögum. Viðbrögð stjórnvalda í þessari neyð voru þau að tryggja innlenda innlánsreikninga að fullu og dæla peningum í innlenda peningamarkaðssjóði til að draga úr skaða Íslendinga sem höfðu fjárfest í þeim. Á hinn bóginn gáfu þau ráðamönnum í Bretlandi og Hollandi loðin svör um það hvort staðið yrði við loforð um ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. Sérstaklega var framganga þáverandi seðlabankastjóra í fjölmiðlum til þess að vekja efasemdir um þetta hjá ríkisstjórnum Bretlands og Hollands og kallaði á hörð viðbrögð. Þetta var upphaf þeirrar millilandadeilu sem síðan hefur staðið og veldur því að bæði ríkissjóður og íslensk fyrirtæki njóta afar lítils lánstrausts erlendis. Á úrlausn deilunnar veltur svo hvort Íslendingum muni nokkurn tíma verða treyst aftur til að eiga í alþjóðlegum viðskiptum. Núverandi ríkisstjórn hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að endurreisa traust Íslands og að sumu leyti hefur það gengið framar vonum. Þannig tókust samningar við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings um að þeir tækju yfir bankana sem endurreistir voru á þeirra grunni og hefur tekist vel að lágmarka tjón af gjaldþroti þeirra. Öðru máli gegnir um gjaldþrot Landsbankans og er orsökin fyrir því Icesave-deilan. Eignir bankans erlendis eru óseldar en væntingar markaðarins virðast vera að þær muni duga fyrir öllum forgangskröfum. Ef svo yrði þá fælust útgjöld íslenska ríkisins vegna ríkisábyrgðarinnar eingöngu í vaxtakostnaði. Ólíklegt er að áframhaldandi samningaviðræður við útlendinga lækki hann. Í fyrsta lagi er Alþingi Íslendinga búið að samþykkja lög um að miðað sé við 5,5% vexti, forsetinn hefur undirritað þau lög og andstæðingar samkomulags við Breta og Hollendinga hafa gengið út frá þeim samþykktu lögum sem markmiði Íslands í frekari samningum. Hagstæðari lánakjör hafa enda ekki staðið til boða í öðrum lánasamningum sem gerðir hafa verið við erlendar ríkisstjórnir. Á hinn bóginn gæti vaxtakostnaður Íslendinga lækkað ef hratt gengur að selja eignir Landsbankans. Áframhaldandi óvissuástand vegna ríkisábyrgðar er þó ekki til þess fallið að auka líkur á því. Meðal almennings á Íslandi hefur það sjónarmið verið útbreitt að þjóðin ætti ekki að borga skuldir vegna Icesave-reikninganna. Enda þótt skuldir vegna Icesave séu einungis um 11% af erlendum skuldum þjóðarbúsins hefur málið öðlast gífurlegt pólitískt vægi hér á landi og fyrir tilstuðlan forseta Íslands stefnir í nýja milliríkjadeilu við Hollendinga og Breta. Jafnframt virðist þó hafa náðst sátt um það á Íslandi að það eigi að ábyrgjast Icesave-reikningana og val þjóðarinnar snýst nú um hvort miða eigi við lög Alþingis frá í ágúst sem hefur verið hafnað sem samningsforsendu af Hollendingum og Bretum eða við nýsamþykkt lög sem forsetinn neitaði að undirrita. Ljóst er að lögin frá því í ágúst hafa því aðeins kosti fram yfir hin nýsamþykktu lög ef það reynist Íslendingum ofviða að standa við skuldbindingar sínar og þessi 11% af erlendum skuldum séu í raun kornið sem fyllir mælinn. Á hinn bóginn er tap þjóðarbúsins vegna óleystrar milliríkjadeilu þegar orðið umtalsvert þó að það hafi enn ekki fengist mælt í krónum og aurum. Það veikir nefnilega stöðu okkar í illdeilum við aðrar þjóðir að Íslendingar þurfa á umheiminum að halda en hann hefur mun minni hagsmuni af því að friðmælast við Íslendinga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Áratugum saman bjó íslenska þjóðin við skilvirkt og vel rekið bankakerfi. Stærstu bankarnir voru í eigu ríkisins og bjuggu við öflugt aðhald stjórnvalda. Fyrir tæpum áratug tók kerfið hins vegar stakkaskiptum. Stærstu bankarnir voru seldir einkaaðilum en ríkisstjórnum sem stóðu að einkavæðingu bankanna hugkvæmdist ekki að setja lög sem komu í veg fyrir krosseignatengsl, ríflega bónusa stjórnenda eða óhóflegar lántökur bankanna erlendis. Það þótti ekki samræmast þeirri frjálshyggjupólitík sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar ráku en einn af hornsteinum hennar var að einkavæðing bankanna myndi „leysa fjármagn úr læðingi". Því miður reyndust bankarnir eins og Fenrisúlfur og frelsi þeirra kallaði ragnarök yfir íslenskt efnahagslíf. Fyrir fjórum árum fékk einn einkavæddu bankanna, Landsbankinn, leyfi til þess að reka Icesave-innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi og fullvissuðu íslensk stjórnvöld þarlenda ráðamenn ítrekað um að slíkir reikningar væru tryggðir með ríkisábyrgð. Þegar alvarleg fjármálakreppa reið yfir heimsbyggðina haustið 2008 hrundu hinir skuldsettu íslensku einkabankar á fáeinum dögum. Viðbrögð stjórnvalda í þessari neyð voru þau að tryggja innlenda innlánsreikninga að fullu og dæla peningum í innlenda peningamarkaðssjóði til að draga úr skaða Íslendinga sem höfðu fjárfest í þeim. Á hinn bóginn gáfu þau ráðamönnum í Bretlandi og Hollandi loðin svör um það hvort staðið yrði við loforð um ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. Sérstaklega var framganga þáverandi seðlabankastjóra í fjölmiðlum til þess að vekja efasemdir um þetta hjá ríkisstjórnum Bretlands og Hollands og kallaði á hörð viðbrögð. Þetta var upphaf þeirrar millilandadeilu sem síðan hefur staðið og veldur því að bæði ríkissjóður og íslensk fyrirtæki njóta afar lítils lánstrausts erlendis. Á úrlausn deilunnar veltur svo hvort Íslendingum muni nokkurn tíma verða treyst aftur til að eiga í alþjóðlegum viðskiptum. Núverandi ríkisstjórn hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að endurreisa traust Íslands og að sumu leyti hefur það gengið framar vonum. Þannig tókust samningar við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings um að þeir tækju yfir bankana sem endurreistir voru á þeirra grunni og hefur tekist vel að lágmarka tjón af gjaldþroti þeirra. Öðru máli gegnir um gjaldþrot Landsbankans og er orsökin fyrir því Icesave-deilan. Eignir bankans erlendis eru óseldar en væntingar markaðarins virðast vera að þær muni duga fyrir öllum forgangskröfum. Ef svo yrði þá fælust útgjöld íslenska ríkisins vegna ríkisábyrgðarinnar eingöngu í vaxtakostnaði. Ólíklegt er að áframhaldandi samningaviðræður við útlendinga lækki hann. Í fyrsta lagi er Alþingi Íslendinga búið að samþykkja lög um að miðað sé við 5,5% vexti, forsetinn hefur undirritað þau lög og andstæðingar samkomulags við Breta og Hollendinga hafa gengið út frá þeim samþykktu lögum sem markmiði Íslands í frekari samningum. Hagstæðari lánakjör hafa enda ekki staðið til boða í öðrum lánasamningum sem gerðir hafa verið við erlendar ríkisstjórnir. Á hinn bóginn gæti vaxtakostnaður Íslendinga lækkað ef hratt gengur að selja eignir Landsbankans. Áframhaldandi óvissuástand vegna ríkisábyrgðar er þó ekki til þess fallið að auka líkur á því. Meðal almennings á Íslandi hefur það sjónarmið verið útbreitt að þjóðin ætti ekki að borga skuldir vegna Icesave-reikninganna. Enda þótt skuldir vegna Icesave séu einungis um 11% af erlendum skuldum þjóðarbúsins hefur málið öðlast gífurlegt pólitískt vægi hér á landi og fyrir tilstuðlan forseta Íslands stefnir í nýja milliríkjadeilu við Hollendinga og Breta. Jafnframt virðist þó hafa náðst sátt um það á Íslandi að það eigi að ábyrgjast Icesave-reikningana og val þjóðarinnar snýst nú um hvort miða eigi við lög Alþingis frá í ágúst sem hefur verið hafnað sem samningsforsendu af Hollendingum og Bretum eða við nýsamþykkt lög sem forsetinn neitaði að undirrita. Ljóst er að lögin frá því í ágúst hafa því aðeins kosti fram yfir hin nýsamþykktu lög ef það reynist Íslendingum ofviða að standa við skuldbindingar sínar og þessi 11% af erlendum skuldum séu í raun kornið sem fyllir mælinn. Á hinn bóginn er tap þjóðarbúsins vegna óleystrar milliríkjadeilu þegar orðið umtalsvert þó að það hafi enn ekki fengist mælt í krónum og aurum. Það veikir nefnilega stöðu okkar í illdeilum við aðrar þjóðir að Íslendingar þurfa á umheiminum að halda en hann hefur mun minni hagsmuni af því að friðmælast við Íslendinga.