Körfubolti

Gunnar Einarsson: Nú á maður montréttinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
„Grannaslagirnir eru skemmtilegustu leikirnir," sagði Gunnar Einarsson Keflvíkingur eftir að liðið vann nauman sigur á Njarðvík í Iceland Express-deildinni í körfubolta.

„Menn koma í svona leiki með aukakraft. Sama hvernig staðan er í deildinni þá eru þetta alltaf hörkuleikir."

Njarðvíkingar hafa tapað fimm leikjum í röð en létu granna sína heldur betur hafa fyrir hlutunum í kvöld.

„Þeir mættu klárir í slaginn og þegar við sýndum smá einbeitingarleysi þá komust þeir yfir. Við sýndum bara að við erum hörkulið, komum til baka og kláruðum dæmið," sagði Gunnar.

Keflavíkurliðið getur þó mun betur en liðið sýndi í kvöld. „Já klárlega. Við skoruðum 78 stig og eigum helling inni. Vörnin hjá okkur hefur verið sæmileg og fínt að fá bara á sig 72 stig á heimavelli þó ég hafi viljað halda þeim enn neðar."

„Nú á maður montréttinn í Reykjanesbæ í einhvern tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×