Kvennalið Fram vann fimmtán marka sigur á úkraínska liðinu Podatkova, 36-21, í fyrri leik liðanna í 3. umferð Evrópukeppni bikarhafa í Safamýrinni í kvöld.
Seinni leikurinn fer á sama stað á morgun og aðeins stórslys kemur í veg fyrir að Framliðið tryggi sér þá sæti í sextán liða úrslitunum.
Framliðið hafði algjöra yfirburði í leiknum frá fyrstu mínútu,komst í 4-0, 17-4 og var 22-8 yfir í hálfleik. Podatkova minnkaði muninn niður í tíu mörk í upphafi seinni hálfleiksins en nær komust þær úkraínsku ekki.
Marthe Sördal, Stella Sigurðardóttir og Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoruðu allar 6 mörk í kvöld og Íris Björk Símonardóttir varði hátt í 30 skot í markinu.
Handbolti