Það verður risabardagi í Las Vegas þann 7. maí á næsta ári er þeir Manny Pacquiao og Shane Mosley mætast í hringnum.
Hinn 39 ára gamli Mosley er ekki af baki dottinn og ræðst svo sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með því að mæta Pacquiao þó svo hann sé reyndar ekkert sérstaklega hávaxinn.
Pacquiao er "maðurinn" í hnefaleikaheiminum og af mörgum talinn sá allra besti. Hann hefur orðið heimsmeistari í átta þyngdarflokkum og er búinn að vinna 13 bardaga í röð.
Sérfræðingar hafa ekki mikla trú á því að Mosley geti staðið upp í hárinu á Pacquiao. Bardaginn mun skila miklum peningum og athygli og verður líklega síðasta stóra tækifæri Mosley til að láta að sér kveða.