„Þetta lítur þrusuvel út," sagði Fannar Helgason, fyrirliði Stjörnunnar, eftir að liðið vann tíu stiga sigur á Njarðvík í Iceland Express-deildinni í kvöld. Þetta var þriðji sigur Stjörnunnar í röð.
„Við erum að rúlla þetta á mörgum mönnum og það er enginn þreyttur. Mér lýst rosalega vel á þetta hjá okkur."
Fannari fannst breiddin vera helsti munurinn milli liðanna. „Mér fannst við líka vera bara beittari í flestum aðgerðum. Vörnin var traust allan leikinn og sóknin fín þó hún hikstaði aðeins í lokin"
Þessi tvö lið eigast aftur við í bikarnum bráðlega og verður sá leikur einnig í Garðabænum. „Það verður hörkuleikur. Þegar ég var hjá ÍR fengum við Njarðvík í 32-liða úrslitunum á sínum tíma og enduðum sem bikarmeistarar. Ég ætla að endurtaka leikinn," sagði Fannar.
Næsti leikur Stjörnunnar er þó gegn KFÍ á Ísafirði. „Við töpuðum fyrir KFÍ í deildabikarnum fyrir mót og spiluðum eins og kettlingar. Það var okkar versti leikur með undirbúningstímabilinu. Við ætlum að koma dýrvitlausir í næsta leik. KFÍ er stórhættulegt fyrir vestan."