Þarfur og óþarfur iðnaður Sverrir Jakobsson skrifar 9. mars 2010 06:00 Það er skiljanlegt að á krepputímum sé uppi rík krafa um sparnað og hagræðingu í rekstri ríkisins. Þó má vitaskuld ekki spara brýnustu nauðsynjar eins og t.d. að halda 300 milljóna króna atkvæðagreiðslu þar sem búið er að draga annan valmöguleikann tilbaka. Sparnaðurinn snýst frekar um að draga úr óþarfa og þar hafa listamannalaun verið nefnd sérstaklega. Ríkið veitir sem sagt um 350 milljónir á ári í samkeppnisstyrki sem listamenn af ýmsu tagi sækja um; rithöfundar, tónlistarmenn og myndlistarmenn. Ekki er öfundsvert að sitja í úthlutunarnefndum um þessa styrki þar sem sótt er um margfalt fleira fé en hægt er að úthluta. Á hverju ári furðar maður sig líka á því að góðir rithöfundar og listamenn fá ekki styrki þótt að þeir séu svo sannarlega vel að þeim komnir. Fyrir þessi laun, sem eru svo sannarlega ekki þungur baggi á skattgreiðendum, hafa verið framleiddar ótal afurðir sem eflt hafa þjóðarstoltið gegnum tíðina. Þau valda því að menningarleg staða Íslands er sterk miðað við höfðatölu, en það væri hún svo sannarlega ekki ef listamenn þyrftu að lifa „á markaði" eins og það er stundum orðað. Á Íslandi lifa nefnilega einungis 300 þúsund hræður og markaðurinn því ansi lítill til að standa í menningarlegri samkeppni við margfalt fjölmennari þjóðir - sem hafa einnig kosið að efla eigin menningu með ríkisstyrkjum til lista. Listamannalaun eru því dæmi um afar skynsamlega ráðstöfun almannafjár. Peningarnir renna beint til þeirra sem framleiða menningarverðmætin og gera það raunar fyrir laun sem eru vel undir meðaltekjum. Allir sem einhvern tíma fara í bókabúð eða listasafn geta borið vitni um gróskuna sem þetta veldur. Fyrir þessa lágu peningaupphæð eykst orðstír Íslands á alþjóðavettvangi margfalt. Öðru máli gegndi hins vegar um hina gríðarlegu fjárfestingu landsmanna í því að hasla sér völl sem viðskiptastórveldi. Þeir sem þar véluðu um voru ekki á neinum listamannalaunum; á því sviði var hvergi til sparað enda var haft á orði að slíkt afreksfólkið myndi hrekjast úr landi ef það fengi ekki margföld laun á við alla aðra. Það þótti til marks um gríðarlega öfund að gera athugasemdir við þau kjör en hvernig á þá að lýsa þeim sem sjá ofsjónum yfir því að afreksfólk á sviði lista fái að gerast láglaunaðir ríkisstarfsmenn hluta ársins? Sannleikurinn í málinu er hins vegar sú að listiðnin er einstaklega arðbær; sérhver peningur sem í hana fer skilar ríkulegri uppskeru. Þegar litið er á fjárlög ársins 2010 eru raunar margir liðir á þeim sem ættu mun frekar að kalla á alvarlega umræðu heldur en listamannalaun. Þar nægir að nefna 400 milljón króna styrk sem ríkið greiðir hagsmunasamtökum sem kallast Samtök iðnaðarins. Þessi styrkur er innheimtur af fyrirtækjum í iðnaði óháð því hvort þau hafa kosið að gerast aðili að þessum samtökum eða ekki. Raunar ekki af öllum iðnfyrirtækjum því að álverin eru undanþegin þessum skatti, eins og svo ótalmörgum öðrum opinberum gjöldum. Og hvernig verja svo þessi samtök ríkisstyrknum? Það kom í ljós á dögunum þegar formaður þeirra kallaði eftir breytingum á ríkisstjórn. Í þeim fólst annars vegar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að setjast í ríkisstjórn og hins vegar að sú ríkisstjórn (sem hann kallaði „þjóðstjórn") ætti að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins. Höfum í huga að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú þegar umtalsverðra ríkisstyrkja - svo ekki sé minnst á alla styrkina sem hann hefur þegið frá fyrirtækjum útrásarvíkinga. Þarf virkilega að styrkja þennan eina stjórnmálaflokk enn frekar í gegnum hagsmunasamtök sem hafa tekið að sér að reka áróður fyrir stjórnmálastefnu hans? Af hverju gildir þá ekki sama reglan fyrir önnur hagsmunasamtök? Jafnvel samtök sem hafa verðugri málstað en styðja við bakið á stjórnmálaflokki sem er þegar búinn að koma Íslandi í þrot einu sinni. Til eru mörg samtök sem stunda lobbýisma og hagsmunagæslu. Langflest slík samtök njóta lítilla sem engra ríkisstyrkja. Í þessu samhengi er rétt að nefna sérstaklega samtök rithöfunda og listmanna - sem hafa af þeim sökum lítið bolmagn til að útrýma ranghugmyndum um listamannalaun. Væri ekki heillavænlegra verkefni fyrir þjóðarbúið að styrkja þau heldur en enn eitt áróðursprósjekt Sjálfstæðisflokksins? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Það er skiljanlegt að á krepputímum sé uppi rík krafa um sparnað og hagræðingu í rekstri ríkisins. Þó má vitaskuld ekki spara brýnustu nauðsynjar eins og t.d. að halda 300 milljóna króna atkvæðagreiðslu þar sem búið er að draga annan valmöguleikann tilbaka. Sparnaðurinn snýst frekar um að draga úr óþarfa og þar hafa listamannalaun verið nefnd sérstaklega. Ríkið veitir sem sagt um 350 milljónir á ári í samkeppnisstyrki sem listamenn af ýmsu tagi sækja um; rithöfundar, tónlistarmenn og myndlistarmenn. Ekki er öfundsvert að sitja í úthlutunarnefndum um þessa styrki þar sem sótt er um margfalt fleira fé en hægt er að úthluta. Á hverju ári furðar maður sig líka á því að góðir rithöfundar og listamenn fá ekki styrki þótt að þeir séu svo sannarlega vel að þeim komnir. Fyrir þessi laun, sem eru svo sannarlega ekki þungur baggi á skattgreiðendum, hafa verið framleiddar ótal afurðir sem eflt hafa þjóðarstoltið gegnum tíðina. Þau valda því að menningarleg staða Íslands er sterk miðað við höfðatölu, en það væri hún svo sannarlega ekki ef listamenn þyrftu að lifa „á markaði" eins og það er stundum orðað. Á Íslandi lifa nefnilega einungis 300 þúsund hræður og markaðurinn því ansi lítill til að standa í menningarlegri samkeppni við margfalt fjölmennari þjóðir - sem hafa einnig kosið að efla eigin menningu með ríkisstyrkjum til lista. Listamannalaun eru því dæmi um afar skynsamlega ráðstöfun almannafjár. Peningarnir renna beint til þeirra sem framleiða menningarverðmætin og gera það raunar fyrir laun sem eru vel undir meðaltekjum. Allir sem einhvern tíma fara í bókabúð eða listasafn geta borið vitni um gróskuna sem þetta veldur. Fyrir þessa lágu peningaupphæð eykst orðstír Íslands á alþjóðavettvangi margfalt. Öðru máli gegndi hins vegar um hina gríðarlegu fjárfestingu landsmanna í því að hasla sér völl sem viðskiptastórveldi. Þeir sem þar véluðu um voru ekki á neinum listamannalaunum; á því sviði var hvergi til sparað enda var haft á orði að slíkt afreksfólkið myndi hrekjast úr landi ef það fengi ekki margföld laun á við alla aðra. Það þótti til marks um gríðarlega öfund að gera athugasemdir við þau kjör en hvernig á þá að lýsa þeim sem sjá ofsjónum yfir því að afreksfólk á sviði lista fái að gerast láglaunaðir ríkisstarfsmenn hluta ársins? Sannleikurinn í málinu er hins vegar sú að listiðnin er einstaklega arðbær; sérhver peningur sem í hana fer skilar ríkulegri uppskeru. Þegar litið er á fjárlög ársins 2010 eru raunar margir liðir á þeim sem ættu mun frekar að kalla á alvarlega umræðu heldur en listamannalaun. Þar nægir að nefna 400 milljón króna styrk sem ríkið greiðir hagsmunasamtökum sem kallast Samtök iðnaðarins. Þessi styrkur er innheimtur af fyrirtækjum í iðnaði óháð því hvort þau hafa kosið að gerast aðili að þessum samtökum eða ekki. Raunar ekki af öllum iðnfyrirtækjum því að álverin eru undanþegin þessum skatti, eins og svo ótalmörgum öðrum opinberum gjöldum. Og hvernig verja svo þessi samtök ríkisstyrknum? Það kom í ljós á dögunum þegar formaður þeirra kallaði eftir breytingum á ríkisstjórn. Í þeim fólst annars vegar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að setjast í ríkisstjórn og hins vegar að sú ríkisstjórn (sem hann kallaði „þjóðstjórn") ætti að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins. Höfum í huga að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú þegar umtalsverðra ríkisstyrkja - svo ekki sé minnst á alla styrkina sem hann hefur þegið frá fyrirtækjum útrásarvíkinga. Þarf virkilega að styrkja þennan eina stjórnmálaflokk enn frekar í gegnum hagsmunasamtök sem hafa tekið að sér að reka áróður fyrir stjórnmálastefnu hans? Af hverju gildir þá ekki sama reglan fyrir önnur hagsmunasamtök? Jafnvel samtök sem hafa verðugri málstað en styðja við bakið á stjórnmálaflokki sem er þegar búinn að koma Íslandi í þrot einu sinni. Til eru mörg samtök sem stunda lobbýisma og hagsmunagæslu. Langflest slík samtök njóta lítilla sem engra ríkisstyrkja. Í þessu samhengi er rétt að nefna sérstaklega samtök rithöfunda og listmanna - sem hafa af þeim sökum lítið bolmagn til að útrýma ranghugmyndum um listamannalaun. Væri ekki heillavænlegra verkefni fyrir þjóðarbúið að styrkja þau heldur en enn eitt áróðursprósjekt Sjálfstæðisflokksins?