Körfubolti

Nýi KR-kaninn æfði um tíma með Detroit Pistons í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar fögnuðu titlinum síðasta vor.
KR-ingar fögnuðu titlinum síðasta vor. Mynd/Daníel

Íslandsmeistarar KR hafa fundið eftirmann Semaj Inge því liðið er búið að semja við Morgan Lewis sem varð síðasta vetur meistari með Findlay-háskólanum í annari deild bandaríska háskólaboltans. Þetta kemur fram á heimsíðu KR.

„Morgan Lewis er 195 sm og leikur í stöðu skotbakvarðar, lítils framherja og jafnvel undir körfunni við vissar aðstæður. Morgan þykir vera frábær íþróttamaður og var lykilmaður á báðum endum vallarins allan sinn feril í skólanum.

Fékk hann oftast það hlutverk að gæta helsta sóknarmanns andstæðinganna auk þess sem hann þykir mjög sterkur „klárari" eins og 60% skotnýting kappans ber vitni um," segir í fréttinni um Morgan á heimasíðu KR.

Þar segir einnig: „Aðalsmerki Findlay er sterk vörn og mikil barátta og átti Morgan þar stóran hlut að máli. Meðal verðlauna hans má nefna að hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppnarinnar sitt síðasta ár þegar titlinum var landað."

Morgan Lewis var með 12,0 stig, 6,3 fráköst, tvo stolna bolta og tvær stoðsendingar að meðaltali á sínu lokaári með Findlay-háskólanum en liðið vann þá alla 36 leiki sína.

Í sumar tók hann þátt í Orlando Invitational þar sem hann reyndi að komast í NBA deildina og í framhaldinu var hann kallaður til æfinga hjá Detroit Pistons í skamman tíma. Lewis hefur síðan leikið í ABA-deildinni í vetur þar sem hann beið eftir rétta tækifærinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×