Sport

Níu af síðustu tíu Íþróttamönnum Reykjavíkur eru konur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir með verðlaun sín í gær.
Ásdís Hjálmsdóttir með verðlaun sín í gær. Mynd/Heimasíða ÍBR
Stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valdi í gær Íþróttamann Reykjavíkur í 31. sinn og fyrir valinu varð frjálsíþróttakonan Ásdís Hjálmsdóttir úr Glímufélaginu Ármanni. Ásdís er níunda konan á síðustu tíu árum sem hlýtur þessa útnefningu.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, afhendi Ásdísi farandbikar við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Ásdís átti flott ár í fyrra, bætti meðal annars Íslandsmet sitt á árinu og komst upp í 22.sæti á heimslistanum í spjótkasti.

Konur hafa haft mikla yfirburði yfir karlana í kosningunni á Íþróttamanni Reykjavíkur síðasta áratuginn og er sundmaðurinn Jakob Jóhann Sveinsson eini karlamaðurinn á nýrri öld sem hefur hlotið útnefninguna Íþróttamaður Reykjavíkur.

Konur eru þó enn í minnihluta í kosningunni frá upphafi en frá árinu 1979 hafa sautján karlar og fimmtán konur verið valin Íþróttamenn Reykjavíkur. Ásdís varð fyrsti frjálsíþróttamaðurinn í 21 ár til að vera valin eða síðan að Haukur Gunnarsson hlaut þessa viðurkenningu fyrir frammistöðu sína á árinu 1988.

Síðustu ellefu Íþróttamenn Reykjavíkur:

2009 Ásdís Hjálmsdóttir, Ármanni (frjálsar)

2008 Katrín Jónsdóttir, Val (fótbolti)

2007 Ragna Björg Ingólfsdóttir, TBR (badminton)

2006 Jakob Jóhann Sveinsson, Ægi (sund)

2005 Ragnhildur Sigurðardóttir, GR (golf)

2004 Kristín Rós Hákonardóttir Fjölnir og ÍF (sund fatlaðra)

2003 Karen Björk Björgvinsdóttir, ÍOR (dans)

2002 Ásthildur Helgadóttir, KR (fótbolti)

2001 Kristín Rós Hákonardóttir, ÍF (sund fatlaðra)

2000 Kristín Rós Hákonardóttir, ÍF (sund fatlaðra)

1999 Þormóður Egilsson, KR (fótbolti)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×