Lífið

Skrifar þriðju bókina um Bubba

Árni Árnason er að vinna að því að skrifa nýja samtalsbók við Bubba Morthens sem á að koma út fyrir næstu jól. Fréttablaðið/
Árni Árnason er að vinna að því að skrifa nýja samtalsbók við Bubba Morthens sem á að koma út fyrir næstu jól. Fréttablaðið/
„Vinnuferlið við bókina er nýfarið af stað og við Bubbi búnir að hittast nokkrum sinnum,“ segir Árni Árnason markaðsfræðingur en hann er með samtalsbók við tónlistarmanninn Bubba Morthens í bígerð og stefnir á að demba henni í næsta jólabókaflóð.

Þetta er í fyrsta sinn sem Árni sest í rithöfundarstólinn en hann vinnur sem markaðsfræðingur og kennari á daginn og bókin því eins konar áhugamál hjá honum.

Bókin verður gefin út í tilefni 30 ára starfsafmælis Bubba sem er á árinu en á ekki að vera ævisaga tónlistarmannsins. Nú þegar hafa tvær bækur komið út um ævi Bubba Morthens, Bubbi eftir Silju Aðalsteinsdóttur og Ballaðan um Bubba eftir Jón Atla Jónasson, svo það er ekki úr vegi að spyrja Árna hvort það komi einhverjar nýjar upplýsingar fram um tónlistarmanninn fræga í þessari bók?

„Þetta á að vera svona bók sem er byggð á samtölum milli mín og Bubba um allt milli himins og jarðar. Ekkert endilega um hans ævi heldur meira um hans skoðanir á lífinu, tilverunni og málefnum líðandi stundar. Bubbi er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum,“ segir Árni og bætir við að hann búist við að margar fróðlegar og áhugaverðar upplýsingar komi fram og bókin verði því ekki bara fyrir hörðustu aðdáendur tónlistarmannsins. „Það hafa verið gerðar svipaðar bækur áður, eins og bókin um Gunnar Dal Að elska er að lifa og svo kom út sams konar bók um írska söngvarann Bono fyrir nokkrum árum,“ segir Árni og viðurkennir að hann sjálfur sé mikill aðdáandi Bubba Morthens.

„Nú í sumar sitjum við bara og spjöllum með diktafóninn á borðinu um heima og geima og svo þegar líða tekur á haustið sest ég niður og tek samtölin saman,“ segir Árni sem ber Bubba vel söguna og segir hann skemmtilegan í spjalli. - áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.