Stjörnumenn tryggðu sér oddaleik á heimavelli eftir fjögurra stiga sigur á Njarðvík, 95-91, í Ljónagryfjunni í kvöld í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Iceland Express deild karla í körfubolta.
Justin Shouse átti frábæran leik í kvöld og var arkitektinn á bak við sóknarleik Stjörnunnar sem gekk miklu betur en í fyrsta leiknum. Justin var með 27 stig og 12 stoðsendingar í kvöld.
Stjörnumenn byrjuðu frábærlega í Ljónagryfjunni og komust í 16-4 eftir 5 og hálfa mínútu en munurinn var níu stig, 15-24, eftir fyrsta leikhlutann.
Kjartan Kjartansson datt í gang um miðjan annan leikhluta og setti niður átta stig á stuttum tíma og það hjálpaði Stjörnunni við að ná góðu forskoti fyrir hálfleik. Það munaði að lokum fimmtán stigum á liðunum í hálfleik þar sem Stjarnan var 52-37 yfir.
Njarðvíkingar tóku öll völd í þriðja leikhluta og náðu að jafna leikinn í 65-65, 47 sekúndum fyrir lok hans, áður Djorde Pantelic setti niður þrist og sá til þess að Stjarnan var 68-65 yfir fyrir lokaleikhlutann.
Stjörnumenn komust aftur á skrið í lokaleikhlutanum og það var ljóst að endurkoma Njarðvíkurliðsins í þriðja leikhlutanum hafði kostað mikið þrek.
Njarðvík gafst aldrei upp og sótti að Stjörnumönnum á lokasekúndunum en Stjörnumenn kláruðu leikinn á vítalínunni og tryggðu sér oddaleik í Ásgarði á fimmtudaginn.
Njarðvík-Stjarnan 91-95 (37-52)
Stig Njarðvíkur: Magnús Þór Gunnarsson 19, Nick Bradford 15 (7 fráköst, 8 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 14, Friðrik E. Stefánsson 11 (8 fráköst, 7 stoðsendingar), Guðmundur Jónsson 9, Hjörtur Hrafn Einarsson 9 (7 fráköst), Páll Kristinsson 6, Kristján Rúnar Sigurðsson 6, Egill Jónasson 2.
Stig Stjörnunnar: Justin Shouse 27 (12 stoðsendingar), Djorde Pantelic 21 (9 fráköst, 4 varin skot), Jovan Zdravevski 13, Kjartan Atli Kjartansson 10, Fannar Freyr Helgason 9 (7 fráköst), Guðjón Lárusson 7, Magnús Helgason 5 (7 fráköst), Ólafur J. Sigurðsson 3.
Stórleikur Justins sá til þess að Stjarnan tryggði sér oddaleik
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Fleiri fréttir
