Íslenski boltinn

Sara Björk: Það var pirrandi að þurfa bíða í 82 mínútur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í leiknum i kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í leiknum i kvöld. Mynd/Stefán

Blikar geta vel við unað eftir þennan vinnusigur í kvöld og eru þær komnar í annað sæti Pepsi-deildarinnar. Boltinn gekk vel milli leikmanna Blikanna og var þar fremst í flokki Sara Björk Gunnarsdóttir.

„Ég er mjög sátt með þessi þrjú stig, en þetta var orðið mjög pirrandi að þurfa bíða í 82 mínútur eftir markinu. Það þurfti mikla baráttu og vinnusemi til að skora í þessum leik og við þurftum allar að stíga upp til að ná inn marki," sagði landsliðsmaðurinn Sara Björk Gunnarsdóttir ánægð eftir leikinn í kvöld.

Breiðablik var með yfirhöndina nánast allan leikinn og því var eins marks sigur gestanna sanngjarn.

„Mér fannst við vera mun betri í leiknum og þær fengu í rauninni enginn færi, en við gerðum okkur þetta erfitt fyrir með því að byrja seint á því að spila boltanum á milli okkar. Ég er samt virkilega ánægð með að við náðum að skora og hirða öll stigin sem voru í boði.

Þegar fjórum umferðum er lokið eru Blikar með níu stig en Sara Björk telur það ekki tímabært að skoða stigatöfluna og hugsar bara um einn leik í einu.

„Við hugsum um einn leik í einu og ætlum okkur að ná í þrjú stig í næsta leik", sagði Sara Björk eftir stórslaginn í vesturbænum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×