Betri aðskilnaður Ólafur Stephensen skrifar 2. júlí 2010 07:00 Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktaði á fundi sínum um síðustu helgi að ráðherrar flokksins ættu að segja sig tímabundið frá þingmennsku og gera það sem fyrst. „Með því sýna ráðherrar Samfylkingarinnar í verki þann ásetning flokksins að styrkja beri stöðu Alþingis og skerpa á aðskilnaði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu," sagði í ályktun flokksstjórnarinnar. Þetta er í grunninn góð tillaga, en sennilega hafa flokksstjórnarmenn ekki hugsað útfærsluna alveg til enda. Eins og kom fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í gær, fylgir því bæði umstang og kostnaður að ráðherrar hverfi af þingi og teknir séu inn varamenn í staðinn. Alþingi þyrfti til dæmis að leigja skrifstofuhúsnæði fyrir þá, sem þannig settust á þing og fjölga sætum í pínulitlum þingsal. Þá gera stjórnarskrá og lög ekki ráð fyrir að ráðherrar geti sagt af sér þingmennsku tímabundið og snúið aftur á þing ef flokkur þeirra hættir til dæmis stjórnarþátttöku. Aukinheldur væri eitthvað sérkennilegt að ráðherrar annars stjórnarflokksins segðu af sér þingmennsku, en hins ekki. Hins vegar er full ástæða til að huga að því við almennar stjórnkerfisbreytingar í framtíðinni að skerpa á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds með því að ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur oftsinnis, allt frá árinu 1995, lagt fram á Alþingi frumvarp um slíkan aðskilnað, að norskri og sænskri fyrirmynd. Rök hennar hafa meðal annars verið þau að vegna þess að ráðherrar sitja ekki í þingnefndum, væri um sjötti hluti þingheims óvirkur í nefndastarfinu. Þá myndi það efla aðhald Alþingis með framkvæmdarvaldinu að ráðherrar væru ekki jafnframt þingmenn. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, nefnir önnur rök í Fréttablaðinu í gær. Þegar litlir flokkar eiga sæti í ríkisstjórn getur komið upp sú staða að hálfur þingflokkurinn sitji í ráðherraembættum og ríkisstjórnin hefur þegar af þeirri ástæðu yfirhöndina í þingflokknum. „Það er eðlilegra að ráðherrar þurfi að rökstyðja sín mál fyrir þingflokknum og vinna þeim fylgi," segir Árni Páll. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær myndi það kosta um 190 milljónir króna ef ráðherrar hættu á þingi og teknir yrðu inn varamenn í staðinn. Jafnframt væri sætaskipan í þingsalnum í nokkru uppnámi, því að ráðherrar þyrftu eftir sem áður að eiga sæti á Alþingi embættis síns vegna. Framhjá þessum vanda er þó auðvelt að komast með því að fækka þingmönnum um leið og sú regla yrði sett að ráðherrar gegndu ekki jafnframt þingmennsku. Þá þyrfti nýtt fyrirkomulag ekki að verða dýrara. Þessi hugmynd hlýtur að koma til umræðu á stjórnlagaþinginu, sem haldið verður á næsta ári samkvæmt nýsettum lögum frá Alþingi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Það er verið að ljúga að okkur Hildur Þórðardóttir Skoðun
Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktaði á fundi sínum um síðustu helgi að ráðherrar flokksins ættu að segja sig tímabundið frá þingmennsku og gera það sem fyrst. „Með því sýna ráðherrar Samfylkingarinnar í verki þann ásetning flokksins að styrkja beri stöðu Alþingis og skerpa á aðskilnaði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu," sagði í ályktun flokksstjórnarinnar. Þetta er í grunninn góð tillaga, en sennilega hafa flokksstjórnarmenn ekki hugsað útfærsluna alveg til enda. Eins og kom fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í gær, fylgir því bæði umstang og kostnaður að ráðherrar hverfi af þingi og teknir séu inn varamenn í staðinn. Alþingi þyrfti til dæmis að leigja skrifstofuhúsnæði fyrir þá, sem þannig settust á þing og fjölga sætum í pínulitlum þingsal. Þá gera stjórnarskrá og lög ekki ráð fyrir að ráðherrar geti sagt af sér þingmennsku tímabundið og snúið aftur á þing ef flokkur þeirra hættir til dæmis stjórnarþátttöku. Aukinheldur væri eitthvað sérkennilegt að ráðherrar annars stjórnarflokksins segðu af sér þingmennsku, en hins ekki. Hins vegar er full ástæða til að huga að því við almennar stjórnkerfisbreytingar í framtíðinni að skerpa á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds með því að ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur oftsinnis, allt frá árinu 1995, lagt fram á Alþingi frumvarp um slíkan aðskilnað, að norskri og sænskri fyrirmynd. Rök hennar hafa meðal annars verið þau að vegna þess að ráðherrar sitja ekki í þingnefndum, væri um sjötti hluti þingheims óvirkur í nefndastarfinu. Þá myndi það efla aðhald Alþingis með framkvæmdarvaldinu að ráðherrar væru ekki jafnframt þingmenn. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, nefnir önnur rök í Fréttablaðinu í gær. Þegar litlir flokkar eiga sæti í ríkisstjórn getur komið upp sú staða að hálfur þingflokkurinn sitji í ráðherraembættum og ríkisstjórnin hefur þegar af þeirri ástæðu yfirhöndina í þingflokknum. „Það er eðlilegra að ráðherrar þurfi að rökstyðja sín mál fyrir þingflokknum og vinna þeim fylgi," segir Árni Páll. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær myndi það kosta um 190 milljónir króna ef ráðherrar hættu á þingi og teknir yrðu inn varamenn í staðinn. Jafnframt væri sætaskipan í þingsalnum í nokkru uppnámi, því að ráðherrar þyrftu eftir sem áður að eiga sæti á Alþingi embættis síns vegna. Framhjá þessum vanda er þó auðvelt að komast með því að fækka þingmönnum um leið og sú regla yrði sett að ráðherrar gegndu ekki jafnframt þingmennsku. Þá þyrfti nýtt fyrirkomulag ekki að verða dýrara. Þessi hugmynd hlýtur að koma til umræðu á stjórnlagaþinginu, sem haldið verður á næsta ári samkvæmt nýsettum lögum frá Alþingi.