Innlent

Tillaga um afsökunarbeiðni samþykkt

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, á fundi flokksstjórnar fyrr í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, á fundi flokksstjórnar fyrr í dag.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkti á fundi sínum í dag ályktun þar sem Samfylkingin biður íslensku þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún ber ábyrgð á í aðdraganda hrunsins. Jafnframt heitir Samfylkingin því að hlusta með opnum hug á gagnrýni og takast á við umbætur á skipulagi, starfsháttum og stefnu flokksins til að koma í veg fyrir að sambærileg mistök endurtaki sig.

Megin umfjöllunarefni fundarins í dag voru tillögur umbótanefndar Samfylkingarinnar. Nefndin var skipuð í aprílmánuði til að fara yfir starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins.

Frumkvæði flokksins

„Mikið hefur verið gert til að greina og rekja atburðarrás áranna 2007 og 2008 og hlut einstaklinga sem að málum komu í aðdraganda hrunsins. Þegar til framtíðar er litið skiptir meira máli að skilja hvað brást í skipulagi stofnana, regluverki og lögum samfélagsins, en ekki síður starfsemi stjórnmálaflokka. Þar hefur Samfylkingin tekið frumkvæði og axlað ábyrgð með úrbótum. Tillögur umbótanefndarinnar sem lagðar eru fram til umræðu meðal flokksmanna eru tímamót í þeirri vinnu," segir í ályktun flokksstjórnar Samfylkingarinnar.

Samkvæmt ályktuninni fólst abyrgð Samfylkingarinnar meðal annars í:

• Að taka ekki nægilegt mark á viðvörunarorðum um veika stöðu bankakerfisins.

• Að vinna ekki nægilega markvisst að því að greina stöðu bankanna og undirbúa aðgerðir til draga úr óhjákvæmilegu tjóni vegna veikrar stöðu þeirra.

• Að tryggja ekki gegnum skýrt skipulag flokksins að nægilegt upplýsingastreymi og samráð sé á hverjum tíma meðal ráðherra flokksins, þingflokks, flokksstofnana og almennra flokksmanna.

• Að setja ekki ríkisstjórnarsamstarfinu nægilega ströng skilyrði um nauðsynlegar aðgerðir.

• Að láta hjá líða að setja reglur um takmarkanir á fjárframlögum og styrkjum til frambjóðenda í fjölda opinna prófkjara, þvert á langvinna baráttu flokksins fyrir skýrum reglum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda.

Efnt til funda víðsvegar um landið

„Samfylkingin heitir því að vera drifkraftur í því umbótastarfi sem þegar er hafið á Alþingi og í ríkisstjórn til þess að tryggja faglegt, ábyrgt og heiðarlegt stjórnkerfi, stjórnmálalíf og fjármálakerfi sem verðskuldar traust þjóðarinnar."

Á næstu vikum efnir Samfylkingin til funda um land allt þar sem tillögur og niðurstöður umbótanefndarinnar verða teknar til umfjöllunar. Þar verður kallað eftir viðbrögðum og ábendingum meðal allra flokksmanna. „Í framhaldi af því verður tryggt að þeim umbótum sem umræðurnar leiða fram verði hrint í framkvæmt. Tillögur um áþreifanlegar aðgerðir í því efni verði lagðar tímanlega fyrir næsta landsfund flokksins, sem er æðsta vald hans þar sem almennir flokksmenn hafa síðasta orðið."


Tengdar fréttir

Ingibjörg Sólrún á meðal fundarmanna

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, var meðal fundargesta á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fer fram á Hótel Loftleiðum í dag. Megin umfjöllunarefni fundarins eru tillögur umbótanefndar flokksins en nefndin var skipuð í aprílmánuði til að fara yfir starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins. Ingibjörg tók ekki til máls á fundinum en hún hefur nú yfirgefið samkunduna.

Stjórnarþátttakan afhjúpar veikleika flokksins

Umbótanefnd Samfylkingarinnar kemst að þeirri megin niðurstöðu í skýrslu sem lögð er fyrir flokksstjórn í dag að bankahrunið og ríkisstjórnarþátttaka flokksins afhjúpi veikleika í flokksstarfinu. Varaformaður flokksins segir að ábyrgðin á bankahruninu megi ekki einskorðast við þá einstaklinga sem stóðu í eldlínunni á tíma hrunsins.

Samfylkingin biðji þjóðina afsökunar

Samfylkingin biður þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún beri ábyrgð á í aðdraganda hrunsins. Jafnfram heitir flokkurinn því að hlusta með opnum huga á gagnrýni og takast á við umbætur á skipulagi, starfsháttum og stefnu flokksins til að koma í veg fyrir að sambærileg mistök endurtaki sig. Þetta kemur fram í ályktun sem liggur fyrir flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fram fer á hótel Loftleiðum í dag og verður væntanlega samþykkt síðdegis.

Stjórnmálaflokkum verði bannað að auglýsa í sjónvarpi

Samfylkingin hefur brennt sig illa á því að sækjast eftir og þiggja fé af einstökum fyrirtækjum og fjársterkum hagsmunaaðilum. Það er ljóst að flokkurinn hefur gert afdrifarík og alvarleg mistök með því að láta viðgangast að frambjóðendur öfluðu fjár frá fyrirtækjum, og jafnvel hvetja til þess. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar og lögð var fyrir flokksstjórn Samfylkingarinnar fyrr í dag. Nefndin leggur til að flokkurinn beiti sér fyrir því að sjónvarps- og útvarpsauglýsingar stjórnmálaflokka verði bannaðar í aðdraganda kosninga.

Ráðherrar sagðir í engum tengslum við flokkinn

„Starf ráðherra er í litlum eða engum tengslum við flokkinn. Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa engar skyldur um að standa skil á embættisfærslum sínum gagnvart eigin félögum og flokksmenn hafa engar formlegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherra flokksins,“ segir í skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar sem lögð var fyrir flokksstjórn flokksins í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×