Handbolti

Júlíus: Vissum að þetta yrði erfitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlíus Jónasson segir sínum mönnum til í kvöld.
Júlíus Jónasson segir sínum mönnum til í kvöld. Mynd/Daníel
„Ég er ekki sáttur enda aldrei hægt að vera sáttur við tap," sagði Júlíus Jónasson, þjálfari Vals, eftir tapleikinn gegn Haukum í N1-deild karla í kvöld.

„Við vorum þó að spila betur en fyrir viku síðan. Við bættum andlega þáttinn og baráttunna og menn voru að gefa sig meira í leikinn," bætti hann við en í síðustu viku unnu Haukar enn stærri sigur á Valsmönnum í Meistarakeppni HSÍ.

Haukar voru með mikla yfirburði fyrstu 40 mínútur leiksins en þá lokuðu Valsmenn markinu sínu í heilar sextán mínútur og minnkuðu þá muninn úr tíu mörkum í fjögur.

„Í fyrri hálfleik gerðum við mikið af mistökum bæði í vörn og sókn auk þess sem markvarsla var lítil. Okkur tókst að laga þetta að einhverju leyti í síðari hálfleik og valda Haukum meiri erfiðleikum þá."

Júlíus tók við mikið breyttu Valsliði í sumar og segir að liðið þurfi meiri tíma til að slípast til.

„Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta yrði erfitt hjá okkur í byrjun móts. Það hafa verið margir leikmenn í meiðslum og eru enn auk þess sem að þetta er í raun nýtt lið."

„Það er ýmislegt sem þarf að gerast hjá okkur á skömmum tíma en ég hef trú á því að það takist. Þegar okkur tekst að slípa liðið til og endurheimta menn úr meiðslum verðum við öflugir."

Júlíus sagði einnig að verið væri að ganga frá samningi við öfluga skyttu frá Moldóvu. „Það er verið að ganga frá þessum málum og verið að vinna í því að útvega honum leikheimild. Þetta er öflug skytta sem getur þó leyst allar stöður fyrir utan," sagði Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×