Lífið

Vera tók upp lag í fríinu í París

Vera Sölvadóttir, tónlistar- og kvikmyndagerðarkona, tók upp lag með franska tónlistarmanninum Bertrand Georges fyrir stuttu.  fréttablaðið/Valli
Vera Sölvadóttir, tónlistar- og kvikmyndagerðarkona, tók upp lag með franska tónlistarmanninum Bertrand Georges fyrir stuttu. fréttablaðið/Valli
Vera Sölvadóttir, tónlistar- og kvikmyndagerðarkona, tók nýverið upp lag með franska tónlistarmanninum Bertrand Georges, sem starfar undir nafninu Audible, og verður lagið gefið út á smáskífu innan skamms.

„Ég bjó í París á námsárum mínum og var þá í hljómsveit með Bertrand. Hann er með eigin útgáfu og sækist eftir því að vinna með tónlistarmönnum frá hinum ýmsu löndum og taka upp lög sem sungin eru á mismunandi tungumálum. Lagið sem ég tók upp með honum er þó á frönsku, það er ballaða og heitir á íslensku Fuglarnir og Róbert,“ útskýrir Vera. Hún tók upp lagið í síðasta mánuði á meðan hún heimsótti Parísarborg og er lagið þegar fáanlegt á Netinu. Hún segir Bertrand Georges vera nokkuð þekktan tónlistarmann í Frakklandi og hefur hann þegar gefið út nokkrar hljómplötur með tónlist sinni og er ný hljómplata með honum væntanleg innan skamms.

Vera segist hafa gaman af því að vinna með öðrum listamönnum að tónlist, en sjálf er hún í tónlistartvíeykinu BB & Blake ásamt leikaranum Magnúsi Jónssyni. „Mér finnst mjög gaman að vinna að tónlist með hinum ýmsu tónlistarsnillingum. Þessa dagana er ég að semja tónlist fyrir stuttmynd ásamt Jarþrúði Karlsdóttur sem er afskaplega gaman,“ segir Vera sem leikstýrir einnig myndinni.

Aðspurð segir hún BB & Blake hafa legið í hálfgerðum dvala undanfarið þar sem Magnús er fluttur til Akureyrar vegna vinnu, en hann leikur í The Rocky Horror Picture Show. „Við munum sinna tónlistinni betur þegar ég endurheimti hann í vetur,“ segir Vera glöð í bragði. Hægt er að hlusta á lagið á vefsíðunni www.soundcloud.com/verawonder. -sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.