Lífið

Greiðir fyrir að virðast vera geðveikt fínn gaur

Simon Cowell leggur orð í belg á góðgerðarsamkomu í London í september í fyrra. fréttablaðið/getty
Simon Cowell leggur orð í belg á góðgerðarsamkomu í London í september í fyrra. fréttablaðið/getty
Dálkahöfundurinn Frank DiGia-como hjá dagblaðinu New York Daily News segir í nýjum pistli að Idol-dómarinn Simon Cowell hagræði niðurstöðum á leitarvélum eins og Google til að líta vel út. Simon er reyndar ekki sakaður um að sitja sveittur við lyklaborðið heldur nýtir hann þjónustu sérstakra fyrirtækja sem hagræða niðurstöðum leitarvéla fólki í hag. Fyrirtækin kallast SEO, eða Search Engine Optimization.

DiGiacomo segist hafa heimildarmenn í herbúðum Cowells sem segjast vera sannfærðir um að hann nýti þjónustu fyrirtækjanna. Talsmaður Cowell, hin breska Ann-Marie Thompson, vísar þessum ásökunum á bug og segist finna lykt af samsæriskenningu. Það þarf þó aðeins að slá nafn Cowells í leitarvél til að berja dýrðina augum. Óvísindalegt próf Fréttablaðsins leiddi til að mynda í ljós að þegar nafnið Simon Cowell er slegið inn í Google-leitarvélina birtast neikvæðu fréttirnar ekki á fyrstu síðunum. Flestar fréttirnar fjalla um góðgerðarmál Cowell, frægð hans og frama – sem er óumdeilanlegur. Það væri gott og blessað ef hann væri ekki jafn umdeildur maður og hann sannarlega er.

Bloggarinn Hans Ebert vann eitt sinn hjá útgáfurisunum EMI og Universal. Hann bloggar reglulega um tónlist og 5. ágúst síðastliðinn útskýrði hann hvers vegna American Idol verði betra án Simon Cowell. Hann sagði Cowell vera Söruh Palin tónlistarbransans og að hann þyki ekki töff í heimalandi sínu Englandi. Þá segir hann skoðanir Cowells á tónlist ávallt höfða til lægsta samnefnarans. Samkvæmt heimildum Franks DiGia-como var færsla Eberts „tekin úr sambandi“ skömmu eftir að hún var skrifuð vegna brots á notendaskilmálum Wordpress-bloggþjónustunnar. Eftir tólf klukkutíma birtist færslan á ný. Ebert rannsakaði málið og komst á snoðir um SEO-fyrirtæki frá Bangalore á Indlandi sem sér um að fylgjast með fréttum af frægu fólki.

Ebert kaus að tjá sig ekki um málið, en í grein DiGiacomo er sagt að lögfræðingar séu að skoða málið. Talsmaður Cowells bregst hins vegar ókvæða við, segir málið algjöran þvætting. „Ef Simon hefði eitthvað á móti því sem birtist á Netinu væri ég búinn að heyra af því.“ atlifannar@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.