Körfubolti

Ingi Þór: Þeir fengu að taka alltof mikið að fráköstum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Anton

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, þurfti að sætta sig við 90-86 tap fyrir KR í lokaumferð Iceland Express deildar karla en tapið þýðir að liðið endaði í sjötta sæti og byrjar úrslitakeppnina á útivelli á móti Grindavík.

„Sjötta sæti eða fjórða sæti, Stjarnan eða Grindavík. Ég held að það skipti engu máli en við þurfum bara að vera meira tilbúnari í verkefnið en við vorum í kvöld. Mér fannst við ekki vera nógu grimmir, þeir fengu að taka alltof mikið að fráköstum og þeir skoruðu alltof mikið af auðveldum körfum eftir sóknafráköst," sagði Ingi Þór.

„Þetta KR-lið er feykisterkt, mér fannst við þó vera þokkalega með þá en þetta gekk ekki í dag," sagði Ingi Þór en það gekk illa að ráða við Pavel Ermolinskij sem skoraði tólf stig á síðustu sjö mínútum leiksins.

„Pavel er ofboðslega góður og það er gjörsamlega út úr kortinu að hann skuli vera hérna. Hann er alltof góður fyrir þessa deild en hann er hérna og það er frábært fyrir boltann. Það er gaman að fá svona góða karla inn í deildina því hann er alveg frábær," sagði Ingi Þór og bætti við:

„Við fáum vonandi aftur tækifæri á móti KR og þá tökum við þá," sagði Ingi Þór að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×