Körfubolti

Hlynur: Vorum einfaldlega betri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Daníel
Hlynur Bæringsson átti stórleik þegar að Snæfell tók forystuna í rimmu sinni gegn Keflavík um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Hlynur skoraði alls 29 stig í leiknum og tók þrettán fráköst. Hann var óhræddur við að skjóta að utan og setti niður fjóra þrista.

„Ég hef verið að hitta mjög vel fyrir utan og sérstaklega beint á móti körfunni. Ég veit að ég er ekki besta skytta í heimi en ef ég fæ pláss og fæ að setja lappirnar niður, þá eru mjög góðar líkur á því að ég hitti."

„Siggi Ingimundar sagði líka einu sinni við mig að allir körfuboltamenn geta hitt beint á móti körfunni. Þetta væri bara spurning um sjálfstraust. Ég tók hann bara á orðinu," sagði hann og brosti.

„En við spiluðum einfaldlega betur en þeir í dag. Við spiluðum á fleiri mönnum og nýttum bekkinn okkar vel. Varamennirnir voru að skila okkur mjög dýrmætum stigum."

„Svo var það sjálfstraustið og hugarfarið sem skipti mjög miklu."

Keflvíkingar sóttu mjög hart að Snæfellingum í þriðja leikhluta en Hlynur sagði að þeir hefðu ekki látið það á sig fá.

„Við vorum duglegir að tala saman og spila einfaldlega í „mómentinu". Ef við vorum fimm stigum yfir þá var það bara þannig. Þá skipti engu máli hvort við vorum fimmtán stigum yfir fyrr í leiknum eða hvað það var."

„Keflvíkingar eru með mjög gott lið og munu alltaf láta finna fyrir sér. Við þurftum bara að halda áfram að spila okkar leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×