Lífið

Hera eftirsótt í Evrópu

Hera Björk. MYND/Herabjork.com
Hera Björk. MYND/Herabjork.com

Við heyrðum í Heru Björk söngkonu og Eurovisionfara til að forvitnast hvað hún tekst á við þessa dagana eftir ævintýrið í Noregi. Hera hefur nóg að gera og segir Evrópu vera komna á bragðið enda er söngkona fullbókuð næstu misseri.

„Ég get víst ekki kvartað yfir verkefnaleysi eftir Eurovision ævintýrið þó svo að þau séu nú flest erlendis næstu misserin. Ég var búin að búa mig undir „lægðina" hér heima sem að óhjákvæmilega fylgir alltaf Eurovision þar sem að landinn þarf smá hvíld eftir endalausar fréttir frá Eurovisionlandinu," svarar Hera og heldur áfram:

„En Evrópa er rétt að komast á bragðið þannig að ég er búin að vera að syngja erlendis í sumar á milli þess sem að ég er búin að vera að krútta upp eyðibýli sem ég á fyrir norðan."

„Framundan er Munchen um næstu helgi, svo Helsinki, Lissabon, Manchester, Danmörk, Lúxemborg, New York og Berlín. Og svo taka við jólatónleikar bæði hér heima og erlendis þannig að þetta er bara dásamlegt," segir Hera.

„Ég og Öggi erum byrjuð að vinna í nýju efni og finnum fyrir miklum áhuga erlendis frá og allt sem að við setjum á vefinn selst vel þannig að við höldum ótrauð áfram. Nýjasta afurðin okkar heitir „Because you can" og er að finna á plötunni „Je Ne Sais Quoi" sem við gáfum út fyrir Eurovision," svarar hún spurð út í nýjungar í tónlistinni.

„Platan er að fá góðar viðtökur úti í Evrópu og við erum með samning í Svíþjóð sem að vonandi leiðir okkur inn á spennandi brautir í þessum bransa. „Because you can" er samstarf okkar Ögga og lagahöfundanna sem sömdu lagið „Someday" sem að ég söng í Danmörku sælla minninga," segir Hera.

„Lagið er grípandi og léttur danspoppari með örlitlum klassískum snúning, skelltum smá írskum fíling í þetta svona til hátíðarbrigða. Annars er margt spennandi í pípunum og bara gaman að vera til á Íslandi í dag. Ég er með Söngskóla sem að heitir Complete Vocal Stúdíó og hann er að fara á fullt í september og svo þarf vitanlega að setja í vél og knúsa krakkaskammirnar og karlinn þannig að þetta er allt eins og það á að vera."

Herabjork.com








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.