Innlent

Ekkert bendir til gagnastulds

Þótt engar vísbendingar finnist um meintar njósnir Kínverja er ekki þar með sagt að þær hafi ekki átt sér stað, segir forstjórinn Kári Stefánsson. Fyrirtækið býr yfir mjög viðkvæmum upplýsingum í erfðafræði. Fréttablaðið/Vilhelm
Þótt engar vísbendingar finnist um meintar njósnir Kínverja er ekki þar með sagt að þær hafi ekki átt sér stað, segir forstjórinn Kári Stefánsson. Fyrirtækið býr yfir mjög viðkvæmum upplýsingum í erfðafræði. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég hef bæði haft samband við ríkislögreglustjóra og embætti saksóknara, rætt við menn og leitað ráða. Svo ætla ég að hafa samband við kínverska sendiráðið og láta þá vita að ég hafi ekki ásakað þá um neinar njósnir,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri og stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE.

Fram kom í gögnum frá bandaríska sendiráðinu hér til bandaríska utanríkisráðuneytisins í Washington sem Wikileaks komst yfir og Fréttablaðið birti um síðustu helgi að Kínverjar séu taldir stunda hér iðnnjósnir, einkum á sviði erfðavísinda og líftækni.

Kári sagði í samtali við Fréttablaðið í gær starfsfólk ÍE hafa leitað að grunsamlegu útflæði á gögnum úr tölvukerfi fyrirtækisins en ekkert fundið. Engin merki um innbrot fundust í gær.

Kári segir að sökum þeirra viðkvæmu upplýsinga sem ÍE búi yfir verði engu að síður að fara fram rannsókn á meintum njósnum. „Ég þarf að láta [kínverska sendiráðið] vita að ég hafi ekkert í höndunum annað en skjöl sem segi að þeir hafi verið að njósna,“ segir hann og áréttar að þótt engin merki um grunsamlegt athæfi hafi fundist þýði það ekki að ekkert hafi átt sér stað. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×