Innlent

Tollstjóri í stríði við fljúgandi furðuhlut

Fasteignir ríkissjóðs vilja ekki sjá þetta götusalerni við Tryggvagötu. „Stóreflis ÚFÓ af himnum ofan datt,“ segir framkvæmdastjórinn um tilkomu mannvirkisins. Fréttablaðið/stefán
Fasteignir ríkissjóðs vilja ekki sjá þetta götusalerni við Tryggvagötu. „Stóreflis ÚFÓ af himnum ofan datt,“ segir framkvæmdastjórinn um tilkomu mannvirkisins. Fréttablaðið/stefán
Nýtt götusalerni fyrir almenning sem framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar leigir af AFA JCDecaux og stendur í Tryggvagötu fellur í grýttan jarðveg innandyra í Tollhúsinu.

Snævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fasteigna ríkissjóðs, segir að þegar fréttist af því að koma ætti götusalerninu fyrir hafi hann eftirlátið Snorra Olsen tollstjóra, sem notanda hússins, að gera þær athugasemdir sem hann vildi. Snorri benti meðal annars á að salernið yrði við aðalinngang Tollhússins og ætti að standa á bílastæði fyrir fatlaða. Það myndi skerða útsýni ökumanna og valda slysahættu. Embætti skipulagsstjóra sagði að stæði fyrir fatlaða á þessum stað hefði jafnvel meiri áhrif á útsýni ökumanna en „salernissílóið“ eins og það var kallað.

„Síðan hefur ekkert frést af þessari fyrirætlan fyrr en í síðasta mánuði að „stóreflis ÚFÓ af himnum ofan datt,“ svo vísað sé í frægan texta Stuðmanna,“ skrifar Snævar Guðmundsson, sem blandaði sér formlega í málið og sendi skipulagssviði borgarinnar athugasemdir. Snævar segir engan hafa órað fyrir að salernið yrði á fimmta metra að hæð.

„Í raun er um risavaxinn og upplýstan auglýsingastand að ræða með innbyggðri salernisaðstöðu,“ segir Snævar sem kveður salernið því ekki aðeins vera þjónustu við borgarana heldur einnig mannvirki fyrir atvinnustarfsemi sem þarfnist staðfestingar byggingarfulltrúa.

Þá segir Snævar salernið inni á leigulóð Tollhússins og spilli ásýnd þess. „Hætt er við að mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur, á suðurhlið hússins, hverfi í skuggann af neonljósunum,“ segir í athugasemdum Snævars, sem einnig bendir á að starfsmenn Tollhússins geti orðið fyrir óþægindum af staðsetningunni steinsnar frá mötuneyti þeirra.

„Starfsmenn hafa af því miklar áhyggjur að útöndun úr lofttúðum mannvirkisins leggi inn um glugga mötuneytisins og spilli vistinni þar,“ skrifar Snævar sem kveðst eiga von á því að málið fari nú í eðlilegan farveg innan borgarkerfisins. Hann bendir til dæmis á að betra pláss sé fyrir salernisturninn austan Tollhússins.

Erindi Snævars var tekið fyrir hjá skipulagsstjóra fyrir ellefu dögum og sent þaðan til umsagnar hjá framkvæmda- og eignasviði borgarinnar. „Við vonum að þetta muni reynist borgarbúum vel,“ segir Jóhann Christiansen verkefnastjóri þar sem kveður salernið verða tekið í notkun fljótlega. gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×