Innlent

Sjái til þess að kjörin skerðist ekki

Sævar Gunnarsson
Sævar Gunnarsson
Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að kjör sjómanna skerðist ekki þó að sjómannaafslátturinn verði afnuminn.Þetta kemur fram í ályktun nýafstaðins þings Sjómannasambands Íslands.

Afnámi afsláttarins er harðlega mótmælt og ákvörðunin sögð aðför að sjómönnum. Er þess krafist að stjórnvöld ræði við útgerðarmenn um fyrirkomulag sjómannaafsláttarins og kostnaðarskiptingu milli ríkis og útgerða. Því er hafnað að sjómönnum sé ætlað að sækja á útgerðina um bætur.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fær að finna til tevatnsins hjá sjómönnum. Er hann sagður lítilsvirða sjómenn ítrekað með því að leita ekki eftir áliti samtaka þeirra þegar fjallað er um málefni sjávarútvegsins, hugmyndum hans um að svipta sjómenn aflaheimildum er alfarið hafnað, skorað er á hann að hætta við að banna dragnótaveiðar og ákvörðun hans um frjálsar rækjuveiðar er mótmælt.

Sjómenn minna stjórnvöld á skýrslu nefndar til að ná meiri sátt um stjórnkerfi fiskveiða. „Ekki verður séð á athöfnum stjórnvalda að mark eigi að taka á ábendingum nefndarinnar. Þvert á móti virðist sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja sig fram um að hunsa meirihlutaálit nefndarinnar,“ segir í ályktun.

Þá leggur Sjómannasambandið áherslu á að afdráttarlaust ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði fært í stjórnarskrá.- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×