Innlent

Margir eru enn látnir hverfa

Amnesty International tók að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum á tímum herforingjastjórna í Mið- og Suður-Ameríku. Fréttablaðið/gva
Amnesty International tók að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum á tímum herforingjastjórna í Mið- og Suður-Ameríku. Fréttablaðið/gva
„Þvinguð mannshvörf eru eitt það skelfilegasta sem getur komið fyrir fjölskyldur,“ segir Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Tuttugu ríki hafa fullgilt samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna gegn þvinguðum mannshvörfum og öðlast hann formlegt lagagildi á Þorláksmessu. Allsherjarþingið samþykkti samninginn 20. desember fyrir fjórum árum. Stjórnvöld hér undirrituðu samninginn 1. október fyrir tveimur árum en hafa ekki fullgilt hann.

Markmið samningsins er að koma í veg fyrir þvinguð mannshvörf, svipta hulunni af mannshvörfum og refsa þeim sem bera ábyrgð á þeim. Þá gerir samþykktin fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra kleift að sækja skaðabætur.

Jóhanna segir samtökin hafa barist fyrir þessu allt frá því að herforingjastjórnir í Mið- og Suður-Ameríku námu fólk af götum úti fyrir meira en aldarfjórðungi. „Þetta sýnir að starf okkar er langhlaup,“ segir hún og rifjar upp að mannshvörf séu enn þvinguð, margir hverfi í stríðinu svokallaða gegn hryðjuverkum. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×