Körfubolti

Umfjöllun: Tindastóll fór létt með Breiðablik í Smáranum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Stefán
Það var gleði í andlitum leikmanna Tindastóls eftir að þeir unnu fyrsta leik tímabilsins í kvöld. Þeir lögðu Breiðablik 49-78 í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins og var sigurinn aldrei í hættu hjá gestunum frá Suðárkróki.

Bæði lið er nokkuð breytt frá síðustu leiktíð og þá sér í lagi heimamenn í Breiðablik sem byggja lið sitt nær eingöngu á ungum og efnilegum leikmönnum. Liðið er e.t.v. of ungt til að geta staðið í liðum í efstu deild og það sást vel í kvöld.

Tindastóll náði strax í upphafi góðri forystu og leiddi leikinn með 17 stigum í hálfleik, 21-38. Tilþrif fyrri hálfleiks átti þó hinn ungi Arnar Pétursson í liði Breiðabliks. Brotið var harkalega á honum er hann þeystist upp völlinn með þeim afleiðingum að hann féll í golfið. Arnar tók nokkra hringi á golfinu áður en hann endaði í sannkallaðri módelstellingu við mikla hrifningu áhorfenda sem höfðu gaman af.

Síðari hálfleikur var í raun leikur kattarins að músinni. Blikar leyfðu ungum strákum að spreyta sig og sama má segja um Tindastól. Gestirnir léku góða vörn gegn ungum Blikum sem áttu í erfiðleikum með sóknarleikinn.

Friðrik Hreinsson hjá Tindastól var atkvæðamestur allra leikmanna og skoraði 16 stig. Helgi Rafn Viggósson skoraði 11 stig og tók 13 fráköst. Hjá Breiðablik skoraði Steinar Arason 12 stig og Aðalsteinn Pálsson skoraði 8 stig.

Breiðblik-Tindastóll 49-78 (10-26, 11-12, 11-26, 17-14)

Stig Breiðabliks: Steinar Arason 12, Aðalsteinn Pálsson 8, Ágúst Orrason 6, Arnar Pétursson 6, Atli Örn Gunnarsson 6, Hjalti Már Ólafsson 5, Nick Brady 3, Ívar Örn Hákonarson 3.

Stig Tindastóls: Friðrik Hreinsson 16, Helgi Rafn Viggósson 11/13 fráköst, Sean Kingsley Cunningham 11, Þorbergur Ólafsson 10, Helgi Freyr Margeirsson 7, Dragoljub Kitanovic 7, Pálmi Geir Jónsson 5, Hreinn Gunnar Birgisson 5, Halldór Halldórsson 2, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 2, Einar Bjarni Einarsson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×