Fastir pennar

Ólafur Stephensen: Ekki tími yfirboða

Ólafur Stephensen skrifar

Einhvern veginn er kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fara í lok mánaðarins, varla komin í gang. Önnur mál hafa skyggt á hana í almennri umræðu; rannsóknarskýrsla, handtökur og stefnur á hendur útrásarvíkingum, náttúruhamfarir. Engu að síður eru kosningarnar mikilvægt mál. Það er brýnt að kjósendur setji sig inn í málin í sínu sveitarfélagi og taki upplýsta ákvörðun um hvernig þeir hyggjast verja atkvæði sínu. Ef við teljum lýðræðið á annað borð mikilvægt hljótum við að vilja nota kosningaréttinn.

Ritstjórn Fréttablaðsins hefur viljað gera sitt til að stuðla að upplýstri umræðu og birtir nú síðustu vikurnar fyrir kosningar skoðanakannanir í stærstu sveitarfélögunum í hverjum landshluta og fréttaskýringar um stöðuna í stærstu bæjunum.

Af þeim greinum, sem þegar hafa birzt, er nokkuð ljóst að fjármálin eru efst á baugi víðast hvar. Mörg sveitarfélög eru illa stödd eftir bankahrunið. Þau höguðu sér mörg hver eins og fyrirtæki sem nú eru í vanda, tóku há lán fyrir framkvæmdum og uppfyllingu annarra kosningaloforða en eru nú í þeirri stöðu að lánin hafa snarhækkað vegna hruns gjaldmiðilsins og tekjurnar til að standa undir afborgunum dregizt saman, meðal annars vegna þess að flestir útsvarsgreiðendur hafa misst spón úr aski sínum. Fjöldi sveitarfélaga er því hrikalega skuldsettur.

Við þessar aðstæður er úrlausnarefni stjórnmálamannanna hvernig á að koma lögbundnum verkefnum sveitarfélaganna, einkum velferðar-, félags- og menntamálum, fyrir innan þrengri fjárhagsramma. Svigrúmið til að lofa nýjum framkvæmdum eða útgjöldum er ekkert. Kjósendur ættu raunar að vara sig alveg sérstaklega á stjórnmálamönnum, sem gefa slík loforð; reynslan af þeim undanfarin ár er slæm. Og þeir ættu alls ekki að kjósa þá, sem reyna að yfirbjóða aðra flokka með kostnaðarsömum hugmyndum um framkvæmdir eða þjónustu.

Í þetta sinn ættu kjósendur fremur að kjósa stjórnmálamenn, sem hafa sannfærandi og rökstuddar hugmyndir um hvernig skera megi niður í kostnaði sveitarfélaganna án þess að það komi niður á grundvallarþáttum í velferðarþjónustunni. Þeir ættu að kjósa stjórnmálamenn, sem eru líklegir til að hafa nógu sterk bein til að taka erfiðar ákvarðanir. Helzt ættu þeir að kjósa fólk, sem þorir að ná jafnvægi í rekstrinum án þess að hækka skattana - þótt skattahækkanir séu óvinsælar líta stjórnmálamenn oftast á þær sem auðveldari leið en að skera niður.

Síðast en ekki sízt ættu kjósendur í sveitarfélögum landsins að kjósa stjórnmálamenn, sem eru í sveitarstjórnarmálum af alvöru. Staðan er of alvarleg og lýðræðið of mikilvægt til að kjósa spaugframboð. Vantraust á stjórnmálamönnum er útbreitt þessa dagana, en einmitt þá getur verið ástæða til að kjósa þá sem lofa minnstu en eru líklegastir til að standa við orð sín.








×