Innlent

Tveir í haldi grunaðir um líkamsárás

Mynd/Anton Brink
Mikið gekk á í höfuðborginni í nótt miðað við að um aðfaranótt þriðjudags hafi verið að ræða. Um klukkan háltólf var líkamsárás gerð í miðbænum og situr einn í fangageymslu grunaður um aðild að henni en nokkrir aðilar réðust að fólki með þeim afleiðingum að einn er mögulega kjálkabrotinn.

Um hálftíma síðar var tilkynnt um aðra líkamsárás, að þessu sinni í Vesturbænum og handtók lögregla einn aðila vegna þess máls. Sá gistir líka fangageymslur.

Þá var rúða brotin í Alþingishúsinu. Að sögn lögreglu var um nokkra aðila að ræða og hafði lögregla hendur í hári eins sem grunaður er um verknaðinn. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku.

Innbrotsþjófar voru einnig á ferð í nótt og var meðal annars brotist inn í veitingastað á Laugaveginum. Ekki liggur fyrir hvað þjófarnir höfðu upp úr krafsinu og sama er að segja af innbroti í gám uppi á Höfða.

Í morgun um klukkan sex fékk lögreglan svo tilkynningu um yfirstandandi innbrot í Hafnarfirði og voru tveir aðilar handteknir á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×