Lífið

Jónsi spilar á Moogfest

Jón Þór Birgisson spilar á bandarískri tónlistarhátíð til heiðurs Robert Moog. fréttablaðið/gva
Jón Þór Birgisson spilar á bandarískri tónlistarhátíð til heiðurs Robert Moog. fréttablaðið/gva
Jónsi úr Sigur Rós kemur fram á bandarískri tónlistarhátíð til heiðurs Robert Moog í lok október. Moog fann upp samnefnda hljóðgervla sem hafa verið mikið notaðir af tónlistarfólki í gegnum tíðina. Þessi árlega hátíð fer fram í fyrrum heimabæ Moog í Asheville í Norður-Karólínu og nefnist einfaldlega Moogfest. Auk Jónsa koma þar fram þekktir flytjendur á borð við Massive Attack, MGMT, Hot Chip, Four Tet, Panda Bear og Thievery Corporation.

Tónlistarmönnum sem eru þekktir fyrir að skapa einstakan hljóðheim og búa yfir mikilli sköpunargáfu var boðið að spila á Moogfest. Auk tónleikanna verða haldnir fyrirlestrar um Moog og kvikmyndir sýndar, auk þess sem gestir fá sjálfir að prófa Moog-hljóðfæri.

Hátíðin verður haldin á sama tíma og hin vinsæla hrekkjavaka fer fram í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það verður áherslan alfarið á Moog og hans arfleifð. Robert Moog, sem lést árið 2005, var frumkvöðull í rafrænni tónlist. Auk hljóðgervla bjó hann til önnur hljóðfæri sem tónlistarmenn hafa haft mikil not fyrir.

Jónsi er á tónleikaferð um Norðurlönd þessa dagana. Í kvöld spilar hann í Gautaborg, á sunnudaginn í Helsinki og á þriðjudaginn verður hann á tónleikastaðnum Vega í Kaupmannahöfn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.