Körfubolti

Pavel: Átti von á meiri slagsmálum

Henry Birgir Gunnarsson í DHL-höllinni skrifar

Pavel Ermolinskij hefur á skömmum tíma smollið afar vel inn í lið Íslandsmeistara KR. Hann á hvern stórleikinn á fætur öðrum og hann stígur vart inn á völlinn án þess að ná þrefaldri tvennu. Hann gerði það enn og aftur gegn ÍR í kvöld.

„Við náðum að stýra hraðanum, spila hratt og það hentar þeim ekki nærri eins vel og okkur. Þeir voru í vandræðum fyrir utan smá kafla í fjórða leikhluta," sagði Pavel.

„Þó svo leikurinn hafi verið í járnum framan af fannst mér þeir vera svona hálfvonlausir. Það var ekki sá baráttuandi í þeim sem maður bjóst við, sérstaklega þar sem þetta var leikur í úrslitakeppninni. Þetta var mjög rólegt allt í kvöld og ég bjóst við miklu meiri slagsmálum og látum," sagði Pavel en verður hann með þrefalda tvennu það sem eftir er leiktíðar?

„Vonandi. Ég er ekkert að reyna þetta endilega en þetta er minn leikur og það hvernig ég spila hentar KR-liðinu mjög vel enda margir frábærir sóknarmenn hérna og ég ekkert að einoka boltann allt of mikið. Ég ætla að halda áfram að spila svona og sjá hvað gerist," sagði Pavel en mörgum finnst að hann mætti skjóta meira.

„Ef ég byrja að skjóta og hinir hætta þá byrja menn að rífast yfir því að ég sé að skjóta of mikið. Það þarf að finna hinn gullna meðalveg í þessu. Ég þurfti ekkert að skjóta mikið í dag en ef það kemur leikur þar sem ég þarf að skora þá bara geri ég það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×